sunnudagur, nóvember 21, 2004

Gátan stóra....

Við Erla vorum að keyra gegnum Kópavoginn. Vorum að koma úr Smáralindinni. Það þurfa víst allir að kaupa á sig föt og aðrar nauðsynjar. Kópavogurinn hefur breytt úr sér maður. Ótrúleg þensla. Ég man svo langt þegar göturnar í Kópavoginum voru malarvegir og það voru hænsnakofar í görðunum. Þeir eru horfnir.
Gömlu göturnar líka.
Við vorum að velta þessu aðeins fyrir okkur á leiðinni heim. Það er svo örstutt síðan þetta var nútíminn. Kannski 35 ár. Ef maður hugsar enn lengra þá eru torfbæirnir sem norpuðu einmanalegir í holtunum og melunum í norðangarranum hér á höfuðborgarsvæðinu allir horfnir líka, orðnir að jörð.
Þessum þönkum skaut niður þegar við vorum að labba okkur út úr Smáralindinni.
Gríðarlegt mannvirki........en fallvalt eins og gömlu húsin. Eitthvað mun hún standa lengur en gömlu kofarnir vegna betri byggingarefna. En samt mun hún verða að engu einhvern daginn, að jarðvegi aftur.
Og öll nýju húsin sem við sáum, sem teygja sig út um melana og upp um holtin. Allt verður að engu. Mun hverfa. "Mér finnst þetta svolítið óhugnanlegt" sagði Erla, greinilega ekki laus við smá hroll. En svona er þetta nú, tölvan mín fína sem hjálpar mér að skrifa þessar línur mun fljótlega grotna niður í frumeindir sínar á leið sinni til moldar aftur.

Ef við gætum kíkt milljón ár fram í tímann, kannski bara nokkur þúsund ár, verður ekkert af núinu okkar uppistandandi. Ein eða fleiri ísaldir verða komnar og farnar. Höfuðborgarsvæðið allt verður búið að fara undir skriðjökla einu sinni eða oftar. Sagan mun endurtaka sig. Það þarf ekki að fara lengra en upp að Lögbergi til að sjá greinileg ummerki eftir jökulinn sem síðast skreið hér yfir allt og langt út á Faxaflóa, fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Ekkert verður eins eftir það.
Þetta er skrítin staðreynd en jafn klár og ég sit hér við skrifborðið mitt. Efnið er einfaldlega tímanlegt og gengur úr sér.

Hvað erum við þá að gera hérna, gestir í stuttan tíma? Strá sem visna og hverfa. Hvers virði eru þá þessir flottu “hlutir” sem eru svona fallvaltir? Til hvers að eyða heilli ævi í að eignast meira og meira og ganga svo til fundar við jarðefnin, nakinn. "Allt er aumasti hégómi og eftirsókn eftir vindi" segir Prédikarinn án þess þó að svara gátunni sem svo margir spyrja sig að. Sumir telja sig hafa alla speki og vita svarið. Því fleiri skýringar sem maður heyrir því feitara verður spurningamerkið.
Guð brosir sennilega út í annað yfir skilningsleysi okkar mauranna hér niðri. Kannski fáum við að vita þetta allt saman einn daginn.

Njótið daganna þangað til.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svolítið fyndið vegna þess að í síðustu viku vorum við mamma í Smáralind þegar ég fór allt í einu að pæla í því hvað Adam hefði gert ef hann hefði verið skapaður beint inn í Smáralindina en ekki aldingarðinn - held næstum að ljónin og fílarnir og krókódílarnir og allt það hafi bara verið meinlausari ferðafélagar en "hákarlarnir" sem stunda kaupmennsku nú á dögum.... held allavega að honum hefði brugðið meira.... en allavega - skemmtileg pæling og ég get sko alveg sagt þér það að ef ég fyndi andann í flöskunni og hann byði mér að finna upp hvað sem er og það myndi gerast myndi ég finna upp tímavél.... örugglega svakalega fróðlegt að sjá allt sem gerðist í gamla daga með eigin augum.
Vá löng ummæli.... hehe.
Kkv.
Gittan Gamansama.

Heidar sagði...

Já, hún er nokkuð löng en skemmtilegar vangaveltur og þið sem ekki nenntuð að lesa hana en bara þessi comment: Það er alveg þessi virði, hvetur okkur til að fara vel með dagana okkar !