Yndislegasti tími ársins er að renna skeiðið. Hér sit ég einn og sötra kaffið mitt í sumarbústað austur á Laugarvatni. Ég hef verið að smíða hér í fallegu iðjagrænu umhverfi. Eigendurnir, þau hjónin Magnús og Birgitta, hafa verið mikið hér með mér. Magnús hefur verið endurskoðandinn minn til margra ára. Birgitta er listakokkur og hef ég notið góðs af því, sælkerinn sjálfur. Ekki að ég hafi endilega svo gott af því, finnst ég stundum fullframstæður, en jafna mig alltaf furðufljótt á þeim þankagangi.
Haustið er að koma og brátt fara laufin að taka á sig annan blæ. Eitt og eitt þeirra er farið að roðna við tilhugsunina. Haustlitirnir, eins og þeir eru fallegir, minna á hið óumflýjanlega, vetur er handan hornsins. Tíminn heldur áfram róli sínu hvað sem öðru líður og hjól endurtekninganna snýst áfram, hring eftir hring.
Ein mannsævi er ekki svo margir hringir. Afar mínir og ömmur eru löngu horfin, sömuleiðis pabbi.
Ótrúlega mikið rétt hvað við erum eins og stráið sem vex upp að vori og fellur að hausti.
Að gleðjast yfir lífinu eins og það kemur manni fyrir sjónir er gæfa. Að kunna að sjá fegurðina í kringum mann er hamingja. Ég horfði hugfanginn á Smyril verja óðalið sitt hér í fjallinu, Hrafninn lét í minni pokann fyrir honum og snáfaði burt gargandi af pirringi, það var magnað. Eða bara horfa á dans fiðrildanna í blágresinu og fylgjast með suði fiskiflugunnar sem svo gjarnan fylgir heitum sólardögum, þau lifa ekki veturinn. þetta er lífskúnst. Góð tilhugsun að vera ekki fiðrildi. Lífið er gott, það er gjöf sem varir of stutt til að láta allt það góða sem við götuna liggur, fram hjá okkur fara.
Annað er aum mistök.
2 ummæli:
Vel mælt (skrifað). Amen eftir efninu.
Sammála Binna!
Skrifa ummæli