mánudagur, ágúst 29, 2005

Yljandi nostalgía.

Það var líklega árið 1965 eða 66. Lífið var leikur. Endalaust mikið um að vera hjá okkur krakkaskaranum í Kotinu. Að sjálfsögðu voru alls konar reglur sem við áttum að fara eftir, sumt mátti, annað ekki. Bannað var að láta hænurnar fljúga, ekki láta þær synda, ekki hlaupa á eftir gæsunum, ekki láta beljurnar hlaupa, ekki gefa þeim fóðurbætir, ekki klifra í klettum, ekki vaða uppfyrir, ekki fara upp á þak og ýmislegt annað sem okkur fannst voðalega vitlaust að banna okkur.
Einn góðviðrisdag með sól í hjarta vorum við Rúnar frændi minn að leika okkur saman. Við höfðum hætt okkur inn á landareign Páls á Kirkjulæk. Við vorum að leika okkur við Pálslón rétt austan við Pálsbrekku. Allt hét sínum nöfnum. Þar var skemmtilegt drullumall. Páll átti endur. Þær voru þarna í grenndinni að drullumallast eins og við. - Okkur hafði aldrei verið bannað neitt í sambandi við endurnar hans Páls svo…… þarna var tækifæri.
Við rukum af stað á eftir öndunum. Ég held að tilgangurinn hafi verið fyrst og fremst að athuga hvort þær gætu flogið. Endurnar voru feitar og komust ekkert úr sporunum og því síður að þær gætu flogið. Á endanum gafst ein þeirra upp og við náðum henni. Þetta var ótrúlega spennandi. Nú varð að taka ákvörðun um öndina. Sjálfsagt var, fyrst við vorum búnir að ná henni, að eiga hana. Samt vissum við að þetta var ekki alveg eftir bókinni og grunuðum að ekki yrðu allir ánægðir með afrekið. Því tókum við eftir spekúlasjónir, ákvörðun um framhaldið, að öndina skyldum við samt eiga, og ala hana sjálfir. Samviskan var samt ekki hreinni en svo að við vissum að ef við færum með hana heim si svona, yrðum við örugglega látnir skila henni strax og til þess var eignarrétturinn þá þegar orðinn of sterkur.
Nú upphófst mikil svaðilför með öndina undir höndum. Við óðum upp eftir læknum svo enginn sæi okkur. Alla leið upp í "Drasl" en það var skemmtilegur staður með mikið af bílhræjum sem hent hafði verið, uppáhaldsstaðurinn okkar. Þetta var þar sem lækurinn skiptir sér vestan við Skálann, sem reyndar var ekki risinn þá. Síðan lá leiðin niður eftir vestari læknum alla leið á móts við hellirinn rétt við bæinn heima hjá mér. Okkur hafði tekist að komast óséðir alla leið.
Og þarna vorum við komnir..... og öndin. Lengra hafði áætlunin ekki náð. Það var orðið áliðið og við þurftum að komast heim. Góð ráð voru dýr, ekki gátum við sleppt henni þarna, þá kæmist upp um okkur. Þarna héngum við góða stund og hugsuðum ráð okkar. Loksins urðum við sammála um að við yrðum líklegast að drepa hana.
Það snjallræði datt okkur í hug að auðveldast var að drekkja henni, svo við rúlluðum okkur niður að læk. Rúnar hélt öndinni báðum höndum og ég tók um hausinn á henni og stakk honum í kaf. Öndin spriklaði. Eftir stutta stund spurði Rúnar hvort ég héldi ekki að hún væri dauð... ég gáði, lyfti hausnum uppúr og kíkti framan í hana. Hún var sprelllifandi. Önnur tilraun og það var beðið góða stund með andarangansræfilinn á kafi. Nú hlýtur hún að vera dauð, og enn var kíkt framan í hana og sem fyrr lét hún engan bilbug á sér finna (var okkur sennilega ákaflega þakklát fyrir óþolinmæðina, því hún greip auðvitað andann í hvert skipti sem við kíktum) Í þriðja sinn reyndum við og ekkert gekk. Þá varð okkur ljóst að það var ekki hægt að drekkja öndum. Nú voru góð ráð enn dýrari, öndin var með okkur sprelllifandi og nú var orðið mjög nauðsynlegt að komast heim.
Þá komum við auga á gamlan varpkassa frá hænunum á kafi í rabarbaragarðinum. Sama hugmynd spratt upp hjá okkur báðum, þar gætum við haft hana, lokað hana þar inni og alið hana þar. Við læddumst þangað, tróðum öndinni í varpkassann og settum spýtu fyrir. Hróðugir fórum við svo heim saklausir og yndislegir garmar. Við vorum sestir inn og farnir að gæða okkur á einhverju góðgæti. Þá kemur Benni bróði minn inn og fer að tala um að hann heyri eitthvað garg úti. Fólkið fer út fyrir og allir hlusta á gargið. Það kom frá rabarbaragarðinum.....
Við vorum framlágir og skömmustulegir litlir pjakkar með gargandi önd undir hendinni sem gengum til baka, að skila henni aftur á sinn stað.

Datt í hug að setja þetta hér inn þó mínar nánustu hafi líklega heyrt á þetta minnst.

7 ummæli:

Íris sagði...

Ég hef svo sem heyrt þessa sögu en það var hrikalega gaman að lesa þetta, sá þetta allt saman fyrir mér. Ykkur frændurna að reyna að drekkja öndinni, Hahahahaha. Og komast svo að því að það sé ekki hægt að drekkja öndum!! Skondið!
Væri ekki leiðinlegt að fá fleiri svona skemmtilegar sögur hingað inn ;) Þó maður hafi nú kannski heyrt þær flestar oftar en einu sinni og oftar en... en skemmtilegar eru þær ;)

Karlott sagði...

Alveg bráðfyndin saga Erling! Ég sá þetta alveg fyrir mér, það hefði verið stórfrétt ef ykkur hefði tekist að drekkja öndinni...

Þennan stað ,,Drasl" held ég meira segja ég hafi komið til. Á Kotmótinu í fyrra. Þá labbaði ég upp með læknum, kom að mótunum, þar rétt hjá var bíladrasl og fleira í stórum haug...
Ég skil vel að þetta hafi verið ævintýralegur staður (var sjálfur kallaður öskuhaugarottan af sumum á Ísó...)

Karlott

Nafnlaus sagði...

Sumar sögur - þessi er ein þeirra - er hægt að segja aftur og aftur og þær eru alltaf jafn skemmtilegar. k.kv. Teddi.

Heidar sagði...

Mikið óskaplega hafið þið frændurnir verið óþekkir! Svona vorum við Hlynur ekki, heldur vorum alltaf eins og englar, "Draslið" var þó einnig okkar uppáhaldsstaður.

Karlott: Það sést ekki tangur né tetur af "Draslinu" lengur, eini draslhaugur bíla sem ég hef séð lengi er á planinu fyrir utan Bílabúð Benna, þú veist þar sem hann geymir Mousso-ana. ;-)

Erling.... sagði...

Laglega er ljótt að öfunda
listagóða höfunda
þótt þeir geri góðan díl
í glæsilegum Musso bíl





Veit einhver annars hver þessi Heiðar er ...?

Nafnlaus sagði...

FAAAACEEE!!
Neibb kannast ekkert við hann..
hehe:D
Musso-inn er BARA geðveikt flottur og góður!!!!!

Nafnlaus sagði...

Sorry ég gleymdi, þetta var sko ég Hrund!:D