Það er fátt sem jafnast á við góðra vina fund, kannski helst góðra vina fundur kryddaður matargerðarlist eins og hún gerist best.
Við hjónin eyddum föstudagskvöldinu við slíka iðju. Vinirnir voru Baddi og Kiddý og Heiðar og Sigrún.
Við vorum á heimili Badda og Kiddýar. Kiddý er kokkur, ekki af verri gerðinni, hún eldaði saltfisk af einstakri list að portúgölskum hætti. Hann bar hún fram eftir að hafa boðið uppá forrétt sem samanstóð af spænskri riccoli skinku, salati og sérstakri hindberja sósu sem ég kann ekki nánari skil á. Saltfiskurinn var afar góður, með miklu hvítlauksbragði, bakaður í ofni með gullinbrúnni húð ofan á. Ólíkur flestu sem ég hef smakkað.
Það var verulega skemmtilegt að bragða svona öðru vísi eldaðan saltfisk sem venjulega er soðning hjá flestum Íslendingum. Ég verð að viðurkenna að saltfiskurinn kom mér skemmtilega á óvart og um mig fór léttur sæluhrollur þegar ég naut þessa góða matar. Það skemmdi ekki að fallega var lagt á borð.
Í eftirrétt var svo sherrytriffle að hætti minnar góðu konu. Henni brást ekki bogalistin frekar en fyrri daginn, rétturinn bragðaðist afbragðsvel.
Kvöldið leið hratt eins og flestar góðar stundir og klukkan farin að halla í þrjú þegar við loksins héldum heimleiðis. Það er auðvelt að gleyma sér við skemmtilegt spjall.
Þetta kvöld varð svo kveikja að framhaldi..... Þetta verður endurtekið, næst hjá okkur. Það kallar bara á eitt. Maður verður að fara að læra að elda, svo mikið er víst.
Annars var ég að vinna um helgina, í tvennum skilningi. Við smíðar, þar sem ég var að setja anddyri á hús í Kópavogi og við ritgerðarsmíð. En BA ritgerðin verður víst ekki til nema með mikilli vinnu....... segja þeir!
Erling gourmet kall
Engin ummæli:
Skrifa ummæli