sunnudagur, febrúar 19, 2006

Útsynningur....!

Enn takast þeir á Guðsmennirnir, á síðum dagblaðanna. Kannski til að laða fleiri að trúnni.
Mér dettur stundum í hug ákveðin ferskeytla um “hávært hjal” þegar menn fara mikinn og láta stór orð falla um málefni sem hafa margar ólíkar hliðar. Ekki síst í langþreyttum málefnum samkynhneigðra.

Menn virðast geta endalaust þráttað um trú og túlkanir, ekki síst hvað þetta málefni varðar. Oft finnst mér umræðan bera ættarsvip ferskeytlunnar.
Þeir eru margir sem vilja tylla sér á bekk málflytjenda sannleikans. Ég hef á tilfinningunni að margir sem telja sig fylla þann flokk, hafi einfaldlega ekki getu til að sjá út fyrir rammann sem þeim hefur verið sniðinn, annað hvort í uppeldi eða síðar af misupplýstu fólki.
Margir telja sig hafa skýrari mynd af Guði en aðrir. Þeir fullyrða að þeir viti betur hvernig túlka eigi ritningarnar og það sem Guð hefur að segja. Oftast er túlkunin innrömmuð mynd byggð á kenningum hverrar kirkjudeildar viðkomandi rekur ættir sínar til og það er ærið fjölbreytt flóra.

Trúverðugleiki hvers um sig veltur einhversstaðar á ás sem fáir sjá. Augljóst er að á dögum Jesú var þessi ás, sem skildi að rétt og rangt, ekki á sama stað og farísear og fræðimenn þess tíma sáu hann.
Kannski er því eins farið í dag.

Túlkun sannleikans, sú sem ég þekki einna best til, er þannig uppbyggð að menn gefa sér annarsvegar að túlkunin byggi á tíðaranda þess tíma sem ritað var og innihaldið hafi því ekki gildi í dag, og hinsvegar að túlka það sem sagt er nákvæmlega eftir orðanna hljóðan. Jafnvel orð gamla lögmálsins. Það undarlega er þó að þar virðist kylfa ráða kasti eftir hentugleika.
Það er því með svolitlum hnút í maga sem ég fylgist með þessari umræðu hafandi lært það í lagasögu að gamla lögmálið var ekkert annað en lög þess tíma sem síðan breyttust í tímans rás samanber t.d. að búið var að afnema fjölkvæni þegar Jesú gekk um, en var við lýði og blessað af Guði á dögum Salómons.

Ég skal viðurkenna að ýmislegt í allri þessari hljómkviðu veldur mér hugarangri. Ekki síst þegar ég hugsa til þess að hafa sjálfur verið þátttakandi í of sjálfmiðuðu og rækilega innrömmuðu starfi af mikilli sannfæringu til margra ára, sjóndapur, ekki samt alveg sjónlaus, á þá augljósu staðreynd að pólitík er ekki bara drifkraftur stjórnmálaflokka.

Atburðarás þar leiddi mér loks fyrir sjónir, að keisarinn var ekki í neinum fötum. Gamli ramminn var sömu ættar og gamli belgurinn, brothættur og ófær um að meðtaka nýtt vín.
Trú mín er sterk, Guð er á sama stað, Jesú sömuleiðis. Hefur þá eitthvað breyst?
Já ég hef olnbogarými, nægilegt til að sjá að teningur hefur fleiri en eina hlið.

- Hann blés af suðvestan hjá mér í dag.....!

Áður en ég hætti þá er botn ferskeytlunnar einhvernvegin svona:

“Oft er viss í sinni sök
Sá er ekkert skilur”

1 ummæli:

Hafrún Ósk sagði...

Hæ Erling frændi minn,
Amen segi ég nú bara í fávisku minni. Er bara alveg fullt sammála þér, hver ræður hvað er úrelt og hvað ekki ??
Loksins "einhver sem veit eitthvað" að segja það sem ég hef mikið reynt að láta fólk skilja.
kv
Hafrún