miðvikudagur, maí 31, 2006

Gott hjónaband......

Allavega heldur það vel. Sjálfstæðismenn og framsókn enn í eina sæng. Ég á víst ekki svo mikilla hagsmuna að gæta lengur í borgarmálunum þ.e Reykjavíkurborgarmálunum að það skipti mig jafn miklu máli og það gerði. Þó verð ég að segja að ég fer héðan sáttari með þessa blöndu við stýrið, en þá fráfarandi. Vonandi tekst þeim að afnema okurlóða stefnu R-listans sem fyrst og fara að haga skipulagsmálum af einhverri skynsemi.

Nú eru það borgarmálin í Árborg sem skipta mig meira máli. Ég er reyndar ekki mikið inní málefnum Árborgar enn sem komið er, svo forsendur vantar til að mynda mér skoðun á því hvað best fer þar. Mér leist samt ekkert á vinstri Err blönduna sem virtist í uppsiglingu þar. Það sprakk sem betur fer eins og við mátti búast. Nú eru þeir að stíga í vænginn hver við annan, engir aðrir en sjálfstæðismenn og framsókn.....! Gæti verið gifting í vændum á þeim bæ. Eini vandræðagangurinn er hver á að verða borgarstjóri.
Ég held að Eyþór Arnalds hafi skemmt mikið fyrir sér og flokknum með hittni sinni á staurinn í Reykjavík. Hann komst þó þokkalega frá þessu með því að viðurkenna mistökin.

Annars erum við að fá Óðalið afhent á morgun. Þá þarf að mála og taka aðeins til hendinni við húsið áður en við flytjum þann 11. júní n.k.
Býð hér með til pizzuveislu eftir síðasta kassa í hús .... þeim sem nenna að hjálpa okkur að bera þá.
Það verður lyfta sem ber dótið niður af 3ju hæð í Vesturberginu, en hendur (veit ekki enn hversu margar) sem bera það inn í Óðalið á Ölfusárbökkum.
Núna sit ég í austurherberginu og horfi út um gluggann. Yfir borginni er þykk skýjahula. Beint í austri, út við sjóndeildarhringinn brestur hulan, þar glittir í sólina og hitann..... Selfoss here we come.

Ég er sprækur ...eins og lækur

fimmtudagur, maí 18, 2006

“Hún er aggresív”

Sagði Erlendur Gíslason um ritgerðina mína, annar leiðbeinenda minna. Ég hváði aðeins og spurði á móti hvort hún væri of aggresív? Hann svaraði snöggur, nei alls ekki, þú ert bara að velta upp hlutum sem ekki hefur verið gert áður. Hún ber merki reynslu þinnar af byggingamarkaðnum, og augljóst að 23ja ára nemandi hefði skrifað öðruvísi ritgerð um þetta efni.
Ég þakkaði fyrir og sagði honum að þetta væri búið að vera fróðlegt að nálgast þessi mál frá lögfræðilegu hliðinni og afar gagnlegt að kynnast þeim (Erlendi og Othari). Hann sagði það vera gagnkvæmt frá þeirra hendi og þeir væru sammála um að þetta væri ný og athyglisverð nálgun.

Ég er sem sagt búinn að skila BA ritgerðinni minni. Þetta var brot úr samtali við það tækifæri, ég var ánægður með viðtökurnar og er svona í og með að monta mig svolítið yfir viðbrögðunum. Hún fór í prentun í morgun og tilbúin um hádegið, innbundin.

Svo nú er þessum skyldum vetrarins lokið. I fly away...... og við taka skyldur sumarsins.

Vinna, flytja, lifa og leika sér.

laugardagur, maí 13, 2006

Prófalok

Það hefur tekið svolítið á þetta vorið að beita sig hörðu og loka sig inni við lestur. Það má því segja að ég sé frelsinu feginn og stökkvi út í vorið.....fagnandi.

Ég var sem sagt í síðasta prófi ársins í morgun. Tilfinningin var góð. Ég fann fyrir einhverri ómótstæðilegri löngun til að öskra og láta eins og fífl. Ég lét það ekki eftir mér....allavega ekki ennþá.

Ég tók saman að gamni hvað ég hef verið að gera þessi ár. Ófullkomin nálgun á lestri til BA gráðu í lögfræði gæti verið með öllum bókum, dómum, álitum, glósum, glærum og ítarefni, á bilinu 25 - 30 þúsund blaðsíður. Þetta er miðað við að efnið sé lesið einu sinni. Lesturinn er líklega mun meiri þar sem efnið er oftast lesið aftur fyrir próf að stórum parti. Kæmi ekki á óvart þó það lægi nær 40 - 45 þúsund síðum Ég hef setið um 1.100 fyrirlestra. Unnið um það bil 70 verkefni til prófs og tekið 23 lokapróf. Og svo eitt stykki BA ritgerð núna í lokin.

Þetta er hálf ógnvekjandi fjall og eins gott að það blasti ekki allt við þegar ég stóð við rætur þess og lagði af stað, farinn svolítið að silfra í vöngum....!
Ég las fyrstu bókina í síðustu útilegu ársins 2003. Þá vorum við í fellihýsinu að Laugarási í Biskupstungum. Þá hélt ég að ég væri nokkuð vel að mér í lögfræði. Nú veit ég þó allavega að ég vissi ekkert, maður hefur þá lært eitthvað. Mér sýnist þetta vera þannig að eftir því sem maður lærir meira því betur sér maður hversu lítið maður veit. Kannski er það besta skólunin.

Ég ætla að viðurkenna hér að ég gerði mér ekki grein fyrir hversu gífurleg þekking liggur að baki akademísku námi. Ég vissi ekki að til væri fólk með svona ótrúlega hæfileika sem liggja að baki þessu öllu.
Hugsun mannsins er mikið undur. Rökhugsun getur af sér þau lífsgæði sem við búum við í dag.
Merkilegt ekki satt.

Þessi þrjú ár hef ég notið góðs byrs í seglin frá því besta sem ég á, fjölskyldunni minni. Dugnaður og nægjusemi Erlu minnar, stuðningur hennar og annarra meðlima fjölskyldunnar hefur gert þetta mögulegt. Skilning og nægjusemi Hrundar minnar met ég mikils. Það er ekki endilega auðvelt að vera yngst og dekurrófa þegar pabbi sest allt í einu á skólabekk og hefur minni fjárráð. Því þá er minna hægt að veita af ýmsum lífsins gæðum.
Það er vandfundið alvöru ríkidæmi sem jafnast á við mitt.

Já hann er ánægður með prófalok. Hann ætlar út í vorið á morgun.

föstudagur, maí 12, 2006

Pólska mengunin farin

.....og hitinn með. Í staðinn er komin fjallasýn sem ekki sést í pólsku lofti. Ég hef fylgst með öspunum hér fyrir utan undanfarna daga. Ég hef aldrei séð þær laufgast svona hratt. Allt í einu eru þær orðnar grænar en ekki brúnar lengur.
Ég var svo lukkulegur að hafa fengið Gylfa frænda minn til að klippa fyrir mig á Fitinni, það kann hann betur en flestir. Nú væri ég orðinn of seinn til þess.

Sá það í fréttum að Bush kallinn hefur gaman að veiði. Eftirminnilegasta atvik hans úr forsetatíð sinni er þegar hann veiddi 8 punda Abborrann, skondið að hugsa til þess að ekkert af allri frægðinni og vellystingunum stekkur hærra en einn fiskidráttur......! Hann ætti að prófa að veiða hér á Íslandi, þá myndi hann fatta hvað við erum að tala um. Abborrar eru bara ormétin kvikindi sem lítið er gaman að veiða, hef sjálfur prófað.

Ég er löngu orðinn ær inni í mér af þessu kafsundi í bókaflóði lagafræðanna núna, með sólina og vorið gauðandi á gluggann hjá mér. Er farinn að iða í skinninu að komast úúúút.
Nú er samt alveg að koma að leiðarlokum í skólanum – í bili. Síðasta próf þetta árið er á morgun laugardag.
Réttar þrjár vikur í afhendingu á Ölfusáróðalinu. Svo á ég líka von á tilboði í íbúðina í dag.
Allt að gerast.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Lífsspeki

Lífið er stöðuglega að uppfyllast. Ef þú hefur ekki eignast nýtt áhugasvið á einu ári – ef þú hugsar enn eins, byggir á sömu reynslu, bregst alltaf eins við – þá er persónuleiki þinn staðnaður. - Nancy Van Pelt.

Ef svo er, gæti verið ráð að breyta til. Þó ekki væri af annarri ástæðu en eftirfarandi saga kennir: "Lítill fjögurra ára snáði þrýsti nefinu ofan í glerborð í sælgætisverslun. Mamma hans var að flýta sér og sagði: Drífðu þig nú að ákveða þig, láttu konuna fá aurana þína svo við getum farið heim. – En, mamma, sagði strákurinn – ég á bara eina krónu".

Og við eigum bara eitt líf.
Kannski er rétti tíminn núna að yfirvega vandlega hvað við veljum okkur - fyrir næsta áfanga.
Því eins og hún móðir mín segir “ Lífið er allt of stutt”.

sunnudagur, maí 07, 2006

Móðir mín!

Er áttatíu og fimm ára í dag. Hún er hvunndagshetja. Hún lætur hverjum degi nægja sína þjáningu. Mamma er blind. Hún er hjartveik. Hún er með alsheimer. Hún er í hjólastól. Hún kvartar aldrei, kann það ekki. Henni líður alltaf vel, of vel segir hún stundum.
Hún segir að lífið sé of stutt.
Við héldum henni veislu í dag. Hún var í essinu sínu. Sagðist lítið hafa sofið fyrir spenningi. Gjafirnar voru föt. “Ég hef aldrei átt svona mikið af fallegum fötum sagði hún, mig vantar kommóðu.
Sagan hennar er sveipuð fórnfýsi. Hversu marga útigangsmenn tóku þau inn á heimilið sitt? Hef ekki tölu á því. Hversu mörg “vandræðabörn”? Veit það ekki heldur.
Að starfa þannig að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri gerir, varð hlutskipti hennar. Þeirra beggja.
Hún hefur aldrei skreytt sig með þessu.
Hún á launin inni.
Guð blessi hana.

laugardagur, maí 06, 2006

Við freistingum gæt þín.....

og falli þig ver, því freisting hver unnin til sigurs þig ber.

Held mér fast í þetta stef úr sálmabókinni þessa dagana. Bókstaflega. Veðurspáin er andstyggilega nastí þessa helgina. 18 gráðu hiti og sól! .....Hrmff.
Þetta á ekki alveg við mig núna að vera lokaður inni að lesa. Ég gjóa augunum reglulega á fluguboxin mín. Tek þau annað slagið fram og opna. Það veitir smá fró að snerta þær og velja eina og eina flugu fyrir ímyndaða vatnabúa sem ég gæti hugsað mér að egna fyrir.

Hlynur er búinn að hringja í mig tvisvar allavega í líki freistarans til að plata mig í eggjaleiðangur, (ekki hætta því!!!). Það hefur verið háttur okkar bræðranna síðustu árin að skreppa nokkrar ferðir á vorin. Allt í þágu fjölskyldunnar auðvitað, þau þurfa sinn mat....! Erla er reyndar búin að leggja drög að því að ég sleppi þessu þetta árið vegna kvefsins.... fuglakvefsins. Ég reyni í veikum mætti að verjast. Það er nú mark takandi á landlækni, að ég tali nú ekki um yfirdýralækni.
Þeir eru sammála mér báðir að við þurfum lítið að óttast.
Ég þarf eiginlega nokkur “sammála komment” með viturlegu innleggi á þessa grein, svona okkar á milli, það styrkir málstaðinn!

Ég hlakka til annars mánudags. Ritgerðarskil, próf búin og lok síðustu annarinnar. Þá geri ég ráð fyrir að BA verði í öruggri höfn.

Vorkenni ykkur að þurfa að vera úti að flækjast í svona illviðri.
Greyin.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Fingrafar

Átti fund með lögfræðingi í Umhverfisráðuneytinu í dag. Kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún situr í nefnd sem vinnur að heildarendurskoðun skipulags- og byggingarlaga. Sú var líka ástæða fundarins.
Ég spurði hana í þaula um nýtt frumvarp sem nefndin er að smíða. Aðallega þó um byggingarstjóra og iðnmeistara en það er efnið sem ritgerðin mín fjallar um.
Þetta var fróðleg yfirferð... og skemmtileg.
Það skemmtilegasta var að ég lagði á borð nokkrar hugmyndir sem koma fram í ritgerðinni minni sem ganga svolítið á skjön við það sem haldið er fram í dag. Málefni sem þau hafa ekki verið að skoða, en skipta máli.
Til að gera langt mál stutt þá keypti hún þau rök sem ég var að leggja á borð. Frumvarp til nýrra byggingalaga verður með fingrafari mínu - að líkindum.