Það var fjölskyldudagur í Þverá í dag.
Veiðisjúklingar eins og ég geta ekki látið slíkt framhjá sér fara. Nokkuð margir voru við veiðar, eflaust misjöfn veiðin eins og gengur. Ég fór þremur löxum ríkari heim. Uni ég glaður við minn hlut, enda segir mér hugur að einhverjir hafi farið heim með öngulinn fastan í óæðri endanum.
Annars vorum við á Föðurlandi um helgina í blíðskaparveðri og fallegum haustlitum. Nokkrir heimsóttu okkur í litla kofann sem er óðum að taka á sig Erlu mynd sem þýðir að hann er að verða afar kósý og notalegur. Það sannast þar að maðurinn byggir húsið en konan gerir það að heimili. Nú vantar bara rafmagn svo vistlegt verði í honum í vetur.
Ég fór ásamt Hansa bróðir í langan göngutúr. Reyndar fjallgöngu því við lögðum af stað gangandi úr Kotinu klukkan sjö á laugardagsmorgun. Leiðin lá upp á Þríhyrning. Hansi er mikill göngugarpur og gengur lágmark þrisvar í viku. Þetta var tólfta gangan á Þríhyrning þetta árið hjá honum. Við fórum austur fjallgarðinn á hæsta tindinn. Þar fórum við síðan niður og skoðuðum gamlar þjóðleiðir og nokkur gömul sel m.a. Kirkjulækjarsel, Kollabæjarsel og Katrínarsel. Við vorum komnir til baka klukkan 12 á hádegi. Ég átti von á að vera undirlagður af harðsperrum eftir þetta afrek. Það reyndist ástæðulaus ótti, þær létu ekki kræla á sér, það er seigt í gamla.
Núna erum við komin heim á Herragarðinn okkar á Selfossi. Ölfusáin sér um að skapa hér afskaplega róandi og notalegan ár nið sem við erum að verða háð. Draumurinn núna er að kaupa verandar geislahitara. Ekki þessa gasknúnu heldur rafmagns. Það myndi gera að verkum að við gætum setið á pallinum á kvöldin í notalegum hita, þótt komið sé haust og blási köldu. Geislinn hitar ekki loftið heldur það sem hann lendir á.
Helgin var notaleg og gefandi.
Já lífið er gott.
2 ummæli:
Vá flottir laxar sem þú hefur nælt á stöngina þína:):) Gaman að koma til ykkar mömmu, alltaf svo notalegt. Er farin að hlakka til að fara næst á Föðurland og sjá hvað mamma er búin að gera þar heimilislegt... Sjáumst... Þín Arna
OHH var ekki geðveikt gaman að veiða?? Spyr eins og asni auðvitað! HEHE, gott að það var gaman og notalegt hjá ykkur mömmu um helgina :) Þið eruð algerir æðibitar! Sjáumst hress, þín Eygló - bride to be :)
Skrifa ummæli