Það var hátíðardagur hjá okkur í gær. Eygló gekk í heilagt hjónaband. Sá heppni Björn Ingi (Bjössi) var lukkulegur með brúðina sína enda falleg með afbrigðum. Hún klæddist brúðarkjól mömmu sinnar sem síðast var notaður þegar við gengum upp að altarinu sjálf. Athöfnin fór vel fram. Teddi var presturinn og gerði þetta vel eins og við var að búast.
Það er sértstök tilfinning að ganga með dóttur sína þessa leið og gefa hana öðrum manni. Þá er gott að vera ánægður með ráðahaginn. Ég hef ekki heyrt annað en gott eitt um Bjössa hjá þeim sem til hans þekkja. Svo Bjössi minn þú er velkominn í mína ört stækkandi fjölskyldu. ”Viðtalið” var bara grín. Þetta er gert til að tilvonandi tengdasonur beri hæfilega virðingu fyrir verðandi tengdapabba.
Veislan var á fallegum stað undir Ingólfsfjalli sem nefnist Básinn. Ég hafði sagt þeim sem staðinn reka að við vildum hafa nóg af öllu og þjónustuna góða. Það stóðst allt og gott betur. Maturinn var virkilega góður og þjónustan eins og best verður á kosið, fólkið þægilegt og viljugt. Ég var ánægður með alla þætti og mæli hér með hiklaust með staðnum. Valdi Júl stýrði veislunni fyrir okkur og gerði það vel. Hildur systir bakaði kransakökuna og Ella tengdamamma brúðartertuna. Christina skreytti salinn og má ég til með að segja það hér að eigandinn hafði sérstakt orð á því hvað salurinn væri vel skreyttur. Reyndar bætti hann við íbygginn á svip að hann yrði nú bara ð segja að hann myndi ekki eftir jafnfallegu brúðkaupi í þessu húsi – gaman að því. Eins var starfsfólkið að ræða við okkur eftir veisluna, þau sögðu að þeim hafði fundist þetta svo fallegt brúðkaup að þau hefðu verðið með tárin í augunum frammi í eldhúsi – "svona eiga brúðkaup að vera" sagði ein þeirra að lokum, "við erum vanari því að fólk viti varla hvað það er að segja því drykkjan er orðin svo mikil í brúðkaupum". Það var gaman að fá þessi komment frá þeim.
Tengdasonurinn sagði svo nokkur þakkarorð í lok veislunnar og setti lag undir geislann og svo dönsuðu þau undir ljúfum ástarsöng áður en þau yfirgáfu staðinn.
Ég vil hér með færa þakkir til þeirra sem lögðu hönd á plóginn til að þetta gæti orðið eins ánægjulegt og raun varð. Það er frábært að eiga svona góða að, hrein og klár lífsgæði.
Ég er svo að fara í ferðalag á eftir að sækja þau hjónin á hótelið sem þau gistu í nótt. Ég var viss um að það væri Hótel Rangá en dóttir mín er búin að hringja í föður sinn og segja honum hvar þau eru – það er ekki Hótel Rangá heldur Hótel Geysir.....!
2 ummæli:
Innilega til hamingju með hana Eygló þína! Hún var svo gullfalleg brúður og þið flott þegar þið löbbuðuð saman inn kirkjugólfið!
Veislan var ykkur vel til sóma og held að allir hafi skemmt sér konunglega.
Hlakka til að hitta ykkur öll á eftir!
Lukku, lukku með stóra daginn þið öll kveðja Davíð
Skrifa ummæli