laugardagur, febrúar 17, 2007

Annríki...

.....þessa dagana má segja. Lexor er að brölta á lappirnar. Nóg að gera eins og íslenskir karlmenn vilja hafa það. Og karlmennska er það, allavega samkvæmt ritúalinu.

Ég hef samt lært eina mikilvæga lexíu. Hún snýr að vinnu v.s. leik. Vinnan göfgar manninn eins og segir í máltækinu. Ég er sammála því en hallast orðið meira að því að hún megi ekki fara út í öfga, sem er leikur einn í því brjálaða þjóðfélagi sem við búum.
Það verða allir að hafa tíma til að leika sér. Leikur stendur hjartanu næst. Hann er það sem viðheldur eldinum sem hamaðist innra með okkur öllum þegar við vorum börn og nutum lífsins til ítrasta. Ég vil halda í þann hluta af mér.
Það er líka í lagi að láta sér dreyma um hluti sem eru bara til að leika sér að. Það er meira að segja á sínum stað að gera draumana að veruleika.
Kiddi vinur minn og mágur lét drauminn rætast nýverið og keypti sér stórt mótorhjól til að leika sér á. Ég verð að segja að mér líst afar vel á þetta þar sem hann hefur látið sig dreyma um þetta lengi. Til hamingju gamli.
Ég á mér sama draum og Kiddi. Líklega mun eldri draumur mín megin, enda er ég aðeins eldri en hann .....þó það auðvitað sjáist ekki.
En ég á það til að láta leik-draumana sitja á hakanum. Sérstaklega ef þeir kosta peninga.
Átæðan er fyrst og fremst sú að reynslan hefur kennt mér að fara varlega í fjármálum, kviksyndi geta leynst víða á þeim lendum og erfitt að lenda í slíku, þau hafa þann eiginleika að gleypa menn lifandi. Ég sé of marga í dag dansa tangó á barmi þessara kviksynda, það er sorglegt (ég er ekki að tala um Kidda hér)
Ég hef lært að setja mér markmið og framkvæma það sem þarf þangað til þeim er náð. Ég hef tamið mér sjálfsaga, sett hendur á stýri og ræð hvert ég stefni. Ég framkvæmi eftir þessari hugmyndafræði.
Framkvæmd er nauðsynleg, hún er nefnilega týndi hlekkurinn milli langana og árangurs. Framkvæmd skilur milli þeirra sem tala bara um hlutina og þeirra sem ná markmiðum sínum.
Það er dagljós staðreynd að án framkvæmda gerist..... ekkert.

Ég er farinn að hugsa alvarlega um að eignast mótorhjól einn góðan dag..... fyndið og alls ekki háleitt markmið, finnst mér sjálfum.
Sjáum hvað setur.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðar óskir. Er innilega sammála þér með að fara varlega og ganga hægt inn um bankadyrnar.

Get ekki beðið eftir að fá hjólið afhent. Sérstaklega ef veðrið verður svona áfram. En ég keypti 5 ára gamalt Yamaha 1100. Sá sem seldi mér það ætlar að láta sprauta tankinn á því áður en ég fæ það afhent. Svo eitthvað þarf ég að bíða. En hef trú á að biðin sé hverrar mínútu virði.

Bestu kveðjur

Kiddi Klettur

Nafnlaus sagði...

Þið eruð alveg frábærir báðir tveir, pabbi og Kiddi. Mér finnst þú ættir að fá þér hjól pabbi og splæsa svo í bleikt skvísuhjól handa mömmu;);) Arna