Kosningar afstaðnar og ný stjórn lögð af stað. Ég verð að segja að mér líst illa á þetta samkrull við Ingibjörgu. Hef ekkert meira um það að segja.
Við komum heim á fimmtudagskvöldið úr velheppnaðri danmerkurferð. Eindæma veðurblíða elti okkur, í orðsins fylltu. Við lentum í Kaupmannahöfn í grenjandi úrhellisrigningu sem hafði staðið í nokkra daga. Við tókum bílaleigubíl á flugvellinum og keyrðum til Jótlands. Strax á Fjóni keyrðum við út úr rigningunni og á Jótlandi var komin sól sem hélst þá daga sem við vorum þar. Morguninn sem við lögðum af stað til Kaupmannahafnar aftur var komin rigning og kalsi á Jótlandi. Við keyrðum svo inn í Kaupmannahöfn i glampandi sól og hita, sem hélst þangað til við fórum heim, svo við vorum hundelt af góðu veðri.
Föstudagsmorguninn beið með fullt fangið af verkefnum til að takast á við. Það var bara gott.
Strákarnir höfðu staðið sig vel meðan ég var úti. Ég var ánægður með það. Pólverjar eru prýðisfólk.
Í gær var ég ásamt tveimur Pólverjum inni á uxahryggjaleið að setja upp eldhúsinnréttingu í vinnubúðir fyrir Hjalla bróðir. Hann er þar að byggja nýjan veg. Hjalli hefur byggt upp ræktarlegt verktakafyrirtæki. Hann kemur víða við og ber fyrirtækið hans með sér góðan vitnisburð.
Núna er hvítasunnudagur og því hátíðardagur. Þá er þess minnst að heilagur andi var okkur gefinn. Hann er góður förunautur í gegnum lífið, einskonar tenging við guðdóminn. Virkar ekki ólíkt og signalið sem þarf til að gemsinn okkar virki. Það næst ekki samband utan þjónustusvæðis eins og inn á uxahryggjum í gær.
Guðstrú er góð, hún felur í sér auðmýkt gagnvart því sem er manni miklu stærra og meira. Það veitist mér auðvelt að trúa á Guð. Það er mér meira fótakefli hvernig allt of margir trúmenn akta sína trú. Ofsi og blind trú á bókstafinn er í mínum augum fáfræði þeirra sem ekki eiga sér víðari völl en þann sem þeim er skammtaður af einfeldningum sem telja sig hafa æðra umboð en aðrir.
Það er miður sú staðreynd að margar kirkjur með slíka einstaklinga á stýri, eru að troðast á akrinum eins og bitlaus þreskivél og troða niður meira en þær afla.
Það er því sennilega vænlegra til árangurs að fara út með orf og ljá og slá þar sem gras er, en að hanga um borð í þannig þreskivél. Því þegar öllu er á botninn hvolft segir Guðsorðið að ein brotin sál skipti meira máli en hundrað "réttlættir".
Við ætlum að skreppa austur í dag með klukkuna fornu. Hún fær virðingarsess í kofanum okkar á Föðurlandi.
Dagurinn er fallegur og góður, og ekki síst ber hann með sér fögur fyrirheit.
3 ummæli:
Frábært hvað Danmerkurferðin var frábærlega skemmtileg hjá ykkur ;) Ég panta að koma með næst! Hehe.. Takk svo fyrir samveruna á Fitinni á sunnudaginn, var svaka skemmtilegt!! Hafðu það rosa gott, þín dóttir Eygló
"Helvíti er að horfa á
Haarde þennan sómamann.
Kyssa beint á kjaftinn á
kerlingu sem að bítur hann."
Sammmála??? :)
Æ,´þetta átti ekki að vera nafnlaust hér á undan, þetta er frá "sys"
Skrifa ummæli