Það var ekki bara að Kári væri fúllyndur um síðustu helgi, heldur lét hann eftir sér að skemma svo um munaði, í leiðinni. Sumarbústaður Hlyns bróður míns varð fyrir barðinu á honum. Ekki bara einhverjar skemmdir, heldur algjört tjón. Hann fauk um koll.
Við fórum bræðurnir austur í dag, það var ekki fögur sjón að sjá. Hrúgan líktist helst áramótabrennu. Allt fokið sem fokið gat.
Vindurinn var langt yfir fárviðrisstyrk eða upp í 47 metra á sekúndu á Sámsstöðum í Fljótshlíð, rétt hjá okkur. (fárviðri er ef vindur fer yfir 32.7 metra á sekúndu). Við skoðun okkar kom í ljós að festingar þaksins við húsið voru nánast engar. Þegar þakið var farið hafa veggirnir ekki haft neinn styrk lengur og þessvegna fokið líka. Ekki við Hlyn að sakast heldur smiði húsasmiðjunnar sem settu húsið saman. Hlynur keypti húsið samansett og flutti það austur. Mitt mat er að Húsasmiðjan sé ábyrg og þurfi að greiða tjónið. Það á hinsvegar eftir að láta reyna á það.
Ég tók nokkrar myndir og set tvær þeirra hér inn svo þið sjáið að þetta er ekkert smá tjón. Á efri myndinni sést brakið af húsinu vel og þakið liggja í fjarska mölbrotið á hvolfi. Það hefur svifið einhverja 50 metra í heilu lagi.
Neðri myndin er af Hlyn að týna til heillegt dót úr rústunum. Nokkrar bækur þarna undir sem voru, svo ólíklegt sem það nú er, þurrar. Annars flest allt mölbrotið og ónýtt.
Nei Kári er ekki í náðinni hjá okkur bræðrum núna, svo mikið er víst.
5 ummæli:
Hrikalegt að lenda í þessu, maður finnur mikið til með honum. Vonandi gengur upp að fá Húsasmiðjuna til að bæta þetta.
Kv. úr Mos
Já Kári hefur aldrei verið vinur minn og hérná sést ein ástæðan.
Vonandi gengur vel að fá bætur fyrir þetta.
Sys
Skelfileg Lífsreynsla !
En svo virðist sem ég vinni hjá góðu
fyrirtæki.
Lögfræðingur Húsasmiðjunar hringdi í mig í dag og sagði þeirra tryggingafélag ætla að skoða hörmungarnar, og ef þetta væri ekki tryggingarmál, þá myndi Húsasmiðjan
ganga inní tjónabætur.
kv.
Hlynur
Þetta er alveg rosalegt! En mikið er gott að lesa að Húsasmiðjan ætli að ganga inn í málið þannig að það er pottþétt að Hlynur fái þetta bætt! Þó svo að tilfinningalega tjónið sé alltaf verst en gott að það er hægt að gera það besta úr þessu.
Rosalegt að sjá þessar myndir!
Sæll frændi,
ótrúlegt að sjá þetta og skelfilegt að verða fyrir þessu. Ég sem hélt að það væri bara veðurblíður í Hlíðinni?
kv.
Guðni Gíslason
Skrifa ummæli