það er engu líkara en að jólin séu á næsta leiti. Ég er búinn að sitja með nefið á kafi í verkefnum undanfarið og varla litið upp. Hrekk svolítið við þegar ég heyri að jólalögin eru komin á fullan snúning hér á bæ. Það þýðir bara að aðventan er að byrja og Erlan komin í jólagírinn. Hún er algjört jólabarn stelpan. Hún fer í annan ham þegar aðventan byrjar. Tekur meira og minna niður allt dótið okkar, pakkar því saman og setur upp allskyns jóladót í staðinn sem við höfum safnað að okkur í gegnum árin. Ég nýt góðs af þessu, því ég er ekki sama jólabarnið og hún. Ég met þó mikils að fá að fljóta með og fá svona jólaland án mikillar fyrirhafnar. Ég reyndar fæ að skreyta húsið að utan sem felst í að hengja jólaseríur hringinn í kringum húsið og í nokkur tré og runna í garðinum. Er að reyna að humma það fram af mér eitthvað meðan ég er í mestu törninni.
Ég er reyndar búinn að vera að gjóa öðru auganu annað slagið út um gluggann hér á skrifstofunni minni og fylgjast með snjóbylnum úti. Gatan er líklega orðin ófær núna. Hér eru bílar búnir að vera að festa sig eða öllu heldur bílstjórarnir bílana sína.
Það er ekki laust við að fari um mig notalegir straumar við að þurfa ekkert að fara af bæ þegar veðrið lætur svona. Naga mig samt svolítið í handarbökin að hafa skilið jeppabúrið eftir í bænum.
Snjórinn úti og jólalögin sem óma um notalegt húsið við ána núna gera andrúmið hér ævintýralegt og fallegt. Meira yndið þessi kona. Held ég verði að taka mér smá pásu - ætla að koma jólabarninu á óvart og hita súkkulaði - sykurlaust...? Nei original.
Njótið aðventunnar vinir mínir.
1 ummæli:
Skemmtilegur pistill hjá þér pabbi, og mikið get ég tekið undir það að mamma er algjört yndi, þið eruð það reyndar bæði, en njóttu jólafílingsins þrátt fyrir námsannir, sjáumst næst;) Elskjú, Arnan
Skrifa ummæli