fimmtudagur, desember 31, 2009

Áramót enn einu sinni

Ár sem hóf göngu sína undir óveðursskýjum er að renna sitt skeið. Það hefur einkennst af stjórnmálasviptingum og átökum meðal þjóðarinnar og á þannig séð, fáa sína líka. Allt hefur tekið breytingum sem engan óraði fyrir. Ekki allar slæmar heldur á margan hátt góðar. Þó finna megi til með þeim sem verst fara fjárhagslega út úr hruninu stendur upp úr sá ljósi punktur að undan kálinu kemur eitthvað nýtt og betra eins og kartöflubændur þekkja best. það gamla deyr og nýtt verður til.

Maður leyfir sér að vona að lífsgildi landans verði önnur og heilbrigðari nú þegar mesta gruggið sígur til botns og sýn skerpist. Framundan er tími til að byggja upp eitthvað varanlegt og gott. Hver og einn er sinnar gæfu smiður í þeirri byggingastarfsemi.

Ísland er land þitt því aldrei skalt gleyma, er einkunnarorð mitt fyrir næsta ár. Pössum okkur að detta ekki í ormagryfju depurðar og vonleysis, Ísland er engu líkt að gæðum.

Ég þakka öllum samferðamönnum mínum góða samleið á árinu og óska ykkur gleði og farsældar á nýju ári

sunnudagur, desember 27, 2009

Jólin

Afar friðsæl jól að ganga til viðar. Skemmtileg líka og gefandi samfélag við þá sem mér þykir vænst um. Vikan framundan er að einhverju leiti vinnuvika en er samt slitin sundur af áramótum. Svo tekur við vinna fram að skóla sem hefst 11. janúar. Ég er lukkunnar pamfíll, það get ég svarið.

fimmtudagur, desember 24, 2009

Hátíð í bæ

Aðfangadagur rann upp bjartur og fallegur en kaldur. Mesta hátíð ársins vítt um heim. Dagurinn sem alltaf virðist hafa sömu óþreyju áhrif á börnin okkar. Hvenær opnum við pakkana mamma, er spurning sem flestar mömmur fá að heyra. Minningar úr bernsku bera með sér að ekkert hefur breyst. Minningum og tilfinningum sem tengjast hátíðarskapi og frið þar sem pakkaopnunin var stóra málið eins og í dag en líka sagan um Jesúbarnið í jötu. Jólin eru fjölskyldutími, samverutími sem verður dýrmæt minning þegar fram í sækir.

Ég á bara góðar og ljúfar minningar af jólum. Saga jólanna og minningarnar tengjast saman. Jólin heima snerust um Jesúbarnið. „En svo bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.....“ þetta hefur hljómað í mínum eyrum hver jól í fimmtíu ár. Við höfum það fyrir sið hér á þessum bæ að lesa saman jólaguðspjallið. Það er undanfari pakkaopnunar. Það gefur hátíðinni meira innihald að minna sig á hversvegna við höldum jólin.

Núna er ilmur af jólum í bænum. Hamborgarhryggurinn á leið upp úr potti og enn hangikjötseymur eftir suðu gærkvöldsins. Við erum ekki með smábörn hér lengur en vorum svo lánsöm að Hrundin kom heim frá Þýskalandi öllum að óvörum svo við verðum ekki einí kvöld eins og leit út. Hrund er eins og mamma sín mikið jólabarn og ég fæ að njóta þess með þeim.

Fésbókin virðist vera aðalsamkomustaður vina og vandamanna en þeim ykkar sem lesið enn síðuna mína óska ég gleðilegrar jólahátíðar með friði og fögnuði.

föstudagur, desember 18, 2009

Prófalok o.fl.

Já það er ljúft.
Það er eins og detti á logn eftir storm þegar síðasta prófi lýkur. Vinna við það sem ég kann best, smíðar, er eins og frítími. Kann það allt utanbókar, ekkert að hugsa, bara vinna.
Smíðaði í gær eins og ég ætti lífið að leysa til að geta verið í fríi í dag. Við erum búin að njóta morgunsins út í æsar. Vorum að spjalla um hvort við ættum ekki að fá okkur eins og fjórar hænur til að sjá heimilinu fyrir eggjum, já okkur dettur nú ýmis vitleysan í hug - og látum oft verða af henni líka. Veðrið er svo fallegt núna sól og bjart, frost og alger lognstilla. Áin sallaróleg með íshröngli fljótandi í rólegheitum niður eftir henni. Það er svona friður og kyrrð yfir öllu einhvernveginn, gott andrúm.
Prófin gengu vel... að ég held. Þær einkunnir sem eru í höfn eru í fína lagi allavega.

Ég er að fara út að hengja upp jólaljósin á húsið og trén í garðinum. Það hefur ekki verið tími til þess fyrr en núna, jólabarnið á bænum ætti að kætast vð það.
Svo er það bara vinna í jólafríinu. Ég hef nóg að gera sem betur fer og sýnist mér veiti ekki af tímanum sem ég hef í fríinu til að komast yfir það sem ég er búinn að lofa.

Njótið lífsins vinir - það er gott