Það eina sem þú hugsar um er bara ííís. Lífið er ekki plokkfiskur, nei lífið er ís. það hefur heldur betur vantað alvöru ísbúð hér á suðurlandið, miðað við aðsóknina hjá okkur. Bara gott um það að segja þó vaktin sé farin að lengjast í annan endann hjá okkur hjónakornunum.
Við sitjum þó heima þessa stundina og treystum starfsfólkinu til að stýra fleyinu. Það gengur bara vel. Við erum líka svo stutt frá að það tekur aðeins fimm mínútur að bregðast við ef eitthvað kemur upp á sem þau ráða ekki við.
Ég kom því loksins í verk að slá garðinn..... hann hefur aldrei áður orðið eins loðinn og núna frá því við komum hingað. Sjálf sláandi garðar fást víst ekki. Bændur hefðu verið í essinu sínu að fá að slá hjá mér. Ég varð að slá allt með orfinu, þar sem sláttuvélin réð ekki alveg við þetta magn. Svo þarf auðvitað að koma heyinu í hlöðu, eða Sorpu.... já þetta er ill meðferð á góðum heyfeng! Svona breytast tímarnir, þetta hefðu verið dýrmæt strá fyrir hundrað árum þegar við áttum allt undir að ná saman nægum heyforða til að lifa af vetrarharðindin. Mér líður betur með garðinn minn nýsleginn, hann ber eiganda sínum nefnilega vitni, bæði fjölskyldu- og vinagarðurinn og þessi kringum húsið.
Núna er ég að sannfæra Erluna um það mikilvæga atriði að ég þurfi að veiða nóg til að þreyja þorrann í vetur. Ég stend á þröskuldi þess að vera engan veginn að standa mig sem veiðimaður fjölskyldunnar. Ef ég fer ekki að bæta úr þessu veiðileysi þá líst mér ekki á veturinn.
Svo þar fyrir utan held ég að Þórisvatnið t.d. sé orðið mjög undrandi að sjá mig ekki. Þannig er augljóst að ég verð að fara að koma mér af stað.....!
Nú er samt best að fara að kíkja í búðina og sjá hvort ekki sé allt í stakasta lagi. Veit ekki hvað varð um mínar háleitu hugmyndir að ef ég setti búð á laggirnar fyrir Erlu gæti ég eytt meiri tíma í veiðarnar. Einhversstaðar hefur eitthvað klikkað hjá mér í þessu.
Njótið daganna gott fólk og..... fáið ykkur ís.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli