mánudagur, ágúst 09, 2010

Gangaþankur

Ég sá um daginn einhversstaðar að kristindómur og Kristur ættu orðið fátt sameiginlegt. Hef hugsað annað slagið um þetta síðan þá.
Margir telja sig kallaða til að prédika kristindóminn og hafi til þess sérstaka hæfileika og óskorað umboð, líkt og Farísear töldu sig hafa forðum. Mér virðist einhvernveginn of fáir þessara útvöldu eiga innistæðu í prédikun sinni fyrir orðunum "gerðu eins og ég geri" í stað "gerðu eins og ég segi".

Það getur svo sem verið að enginn hafi innistæðu til að hvetja til eftirbreytni við sjálfan sig - og þó. Ég gæti bent á örfáa sem ég teldi uppfylla skilyrðin. Þeir aftur á móti, einhverra hluta vegna fara með trú sína eins og gullegg og passa betur upp á hana en öll heimsins gæði og enginn þeirra prédikar - úr púlti. Prédikun þeirra er samt svo hávær að ég heyri ekki til þeirra sem mest láta fyrir þessum lágstemmdu og hógværu prédikurum sem einungis með lífi sínu og verkum fara á stall með Kristi sjálfum. "Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá".
Þá er ég kominn að kjarna þessa örpistils. Orð eru innantómt bergmál þegar verkin segja annað.
Kristindómur snýst gjarnan um orðræður og endalaust meiri orðræður. Kristur talaði líka en verkin undirstrikuðu orðin, hann var m.ö.o. maður orða sinna.

Engin ummæli: