sunnudagur, ágúst 01, 2010

Síðsumar

Þó mér finnist vorið varla liðið er komið fram á síðari hluta sumars. Annirnar hafa verið þvílíkar að sumarið fram að þessu hefur þotið framhjá á tvöföldum hljóðhraða.
Það er gott að hafa nóg fyrir stafni hef ég alltaf haldið fram og segi það enn. Það er þó allt gott í hófi - vinnan líka.
Við eyddum gærkvöldinu á Fitinni í góðra vina hópi. Ættargrillið var haldið hjá Hildi og Jóa þetta árið og við tókum okkur hlé frá önnum og nutum góðs matar og samfélags við fólkið okkar. Það er svo gott þegar fjölskyldan hittist svona því þetta vefur fjölskylduböndin fastar og hnýtir okkur saman.
Við gistum svo í kofanum í nótt og vorum mætt í ísbúðina um 10 leytið í morgun.

Það er svolítið skemmtilegt hvernig mannskepnan er innréttuð. Til að kunna að meta hlutina rétt þarf maður að hafa eitthvað andstætt til að miða við. Ég segi þetta því það var eitthvað svo óvenjulega góð tilfinning að bruna austur og eiga þessa klukkutíma í frí eftir þessa miklu vinnutörn.

Veðrið hefur verið einstakt í sumar og þessi helgi var engin undantekning. Allt tal um að ekki sé hægt að dvelja í Fljótshlíð eða halda mót vegna ösku blæs ég á.
Ekki væsti um tjaldbúa í Hellishólum og á Langbrók um helgina eða alla hina Fljótshlíðingana sem búa í þessari fallegu sveit og kvarta ekki, enda gróðurinn mikið til búinn að hylja alla ösku - sumt er bara vitlausara en annað, og ekki orð um það meira.

Við erum heima núna að gera vaktaplan fyrir ágústmánuð. Við missum margt af starfsfólkinu okkar í skóla kringum 20. ágúst. Við erum búin að auglýsa eftir vetrarfólki í fulla vinnu og höfum fengið þrjár umsóknir....?
Það vekur furðu okkar að ekki skuli fleiri sækja um í atvinnuleysinu. Eru Íslendingar orðnir svona latir að þeim þyki betra að vera á bótum og gera ekki neitt en að hafa vinnu. Ég held svei mér þá að þetta meinta atvinnuleysi sé stílfærður vandi, að innihaldið sé frekar haugur letingja sem ekki nenna að vinna. Allavega mæla umsóknirnar ekki mikið atvinnuleysi.

Fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína í ísbúðina um helgina. Fólk er að uppgötva ísréttina okkar sem við erum mjög stolt af. Við merkjum það í mikilli aukningu í sölu. Það léttir lund að fá svona mikið af jákvæðum kommentum á það sem við erum að gera.
Erla er að klára vaktaplanið, ég ætla að hætta að blogga og færa henni eitthvað gott - hún á það svo skilið þessi duglega kona sem ég á.

Engin ummæli: