laugardagur, ágúst 07, 2010

Skrapp í veiði

Mér áskotnaðist hálfur dagur í Þverá í Fljótshlíð. Það var gaman eins og alltaf. Ég fékk reyndar engan lax á land þó ég missti fjóra eftir talsverða baráttu við hvern þeirra. Þeir eru nýrunnir núna og silfraðir og því mjög sterkir og sprettharðir.
Heiðar fékk að fara með og fékk maríulaxinn sinn. Hann komst ekki hjá því að bíta veiðiuggann af og kyngja eins og sönnum veiðimönnum ber að gera á fyrsta laxi. Kyndugur svipurinn á andlitinu en hann lét sig hafa það.
Ég fékk hinsvegar fallegan urriða, sennilega nær 5 pundum. Hann var sterkur og gaman að landa honum.

Veiði sumarsins er vonandi ekki þar með lokið enn. Ég hef reyndar oftast veitt mest á haustin þegar sjóbirtingurinn er kominn í árnar. Ég á dag í Baugsstaðaós núna síðar í mánuðinum og svo á ég daga í Vola seinna í haust. Ég er því ekki alveg búinn að gefa upp alla von um að mér takist að safna birgðum fyrir veturinn.
Í millitíðinni ætlum við að skreppa til danaveldis og heimsækja þá bræður hennar Erlu sem þar búa.... ennþá. Það er alltaf gaman að heimsækja Danmörkuna þó ekki vildi ég búa þar.
Það er búið að vera mikið að gera í ísbúðinni í dag þótt hér hafi rignt meira í dag en elstu menn muna. Það hefði dugað að fara með sjampóbrúsann út í morgun og taka sturtuna utandyra.
Við ætlum samt að fara að koma okkur út aftur eftir smá pásu heima. Hrundin er í búðinni núna ásamt starfsfólki.
Gerið eins og ég gott fólk og njótið lífsins.

Engin ummæli: