Eins og ég hef margsagt ykkur þá er hlutverk karldýrsins fyrst og fremst að veiða fyrir hellisbúa svo þeir svelti ekki yfir veturinn. Ég tek þetta hlutverk mitt allajafna mjög alvarlega. Nú er ég enn á leið til veiða. Þeir sem lesa síðuna mína vita að ég fer stundum í Vola. Svo rík er ábyrgðartilfinningin gagnvart fjölskyldunni að maður lætur sig hafa það þótt spái rigningu og komið sé harðahaust og varla manni út sigandi, ég fer samt og kem færandi hendi heim - skulum við segja.
Hvað sem öllum gorgeir líður hlakka ég til. Veiðarnar eru mér í blóð bornar, líklega að vestan þar sem afi minn var hinn mesti veiðimaður og án gríns þá hafði hann þetta hlutverk sem ég var að guma mig af hér að framan. Hann veiddi árið um kring til að hafa mat fyrir fjölskylduna. Alltaf var nóg til að borða því hann tók hlutverk sitt alvarlega og veiddi vel ofan í sitt fólk.
Ég læt ykkur vita hér á síðunni hvernig gengur á morgun. Mér fellur illa að koma heim með öngulinn í óæðri endanum svo ég er búinn að tryggja mig fyrir því að það gerist aldrei - Fiskbúðin á Eyrarveginum er tryggingin ef allt annað bregst.
Njótið síðsumarsins - það geri ég.
1 ummæli:
Hahhaa ég hef enga trú á að þú þurfir að koma við í fiskibúðinni á heimleiðinni :O) En hlakka til að heyra hvesu mikið þú veiddir :)
Þín Eygló
Skrifa ummæli