Jólin eru að koma. Aðfangadagur og allar seremoníurnar sem honum fylgja. Seremoníurnar eru góðar, þær eru erfðagóss. Það eykur á gleði mína að skólagöngu minni er lokið, fékk það staðfest í gær. Þá hefst næsti kafli... sálfræðin. Erla var reyndar eitthvað að malda í móinn svo ég þarf að tækla það einhvernveginn. Nema hugsanlega að ég láti hér staðar numið í námsfýsi minni og segi stopp ;o)
Aðfangadagur er einn "fallegasti" dagur ársins. Hann er svo fullur hefða að það hálfa væri mikið, sem við höfum bæði fengið að láni úr foreldrahúsum og skapað sjálf. Þótt við séum ekki lengur með fullt hús barna sem skreyta jólahaldið óneitanlega, þá höldum við jólin með sama sniði og venjulega. Hrísgrjónagrauturinn er fastur liður sem alla hlakkar til borða. Hamborgarhryggurinn með sama sniði og venjulega, meðlætið allt - reyndar höfum við breytt einu eftir að Bjössi hennar Eyglóar kom í ættina. Hann gerir afar gott rauðkál sem við höfum bætt í hefðina okkar.
Erla er að brölta á efri hæðinni, hún er yndislegt eintak. Ég hlakka til að sjá jólaglampann í augunum á henni þegar hún kemur niður enda leitun að öðru eins jólabarni. Hrundin var á næturvakt í Vallholti í nótt svo hún sefur eitthvað fram eftir degi.
Hér vil ég að gamli hátíðleikinn ríki, með fjárhirðana og boðskapinn um fæddan frelsara og frið og fögnuð á jörðu sem engillinn boðaði á völlunum. Það er hinn sanni hátíðarandi sem pakkajólin og ofátið fær aldrei toppað.
Þið sem lesið síðuna mína ennþá - eigið góðan aðfangadag og gleðileg friðarjól.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli