Ég hef sjaldan eða aldrei snætt jafnmikinn og góðan mat og þessi jólin. Kannski er ég orðinn svona hömlulaus að ég ræð mér ekki við kjötkatlana eða maginn svona þroskaður að hann sjái um að melta fæðuna hraðar þegar mikið er á boðstólum, tel mér trú um það síðarnefnda.
Við höfum átt góð jól, aðfangadagur í rólegheitunum með yngstu dótturina með okkur og svo alla ættina okkar á jóladag og fram á annan í jólum en veðurspáin var mjög varhugaverð og því gisti hópurinn hjá okkur. Mér sýndist á öllu að börnunum allavega leiddist það ekki svo ýkja mjög. Allavega fékk ég þau komment frá Petru Rut þegar ég sagði að það væri bara skollið á með logni að það væri mjöööög vont veður á fjallinu ennþá og ekki nokkurt vit í að reyna að fara heim og sitja þar fastur og því borgaði sig að allir myndu gista. Ég var auðvitað sammála þessum sterku rökum og þar með var það ákveðið.
Dagurinn í dag var tekinn rólega því á morgun hefst alvaran. Við fórum í gönguferð um bæinn okkar og enduðum í kaffi hjá Tedda og Kötu. Hressandi að fá loft í lungun og hreyfa sig aðeins eftir át tíðina.
kvöldið verður líka á rólegu nótunum, lestur góðra bóka eða eitthvað annað jafn skemmtilegt.
Já lífið er gott.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli