Það lygnir smátt og smátt í huganum eftir hvassviðrið undanfarnar vikur. Ég gat samt ekki sofið út í morgun frekar en fyrri daginn. Ég verð einhverja daga að fatta að ég þurfi ekki að rífa mig upp og halda áfram að vinna. Ég skilaði af mér ML ritgerðinni í gær. Ég er meðvitaður um að þessi hraði færir mér líklega lægri einkunn en ella. Það verður samt að segjast eins og er að hugsunin um að þetta sé búið vegur upp þau vonbrigði, ef það verður þannig.
Það var svolítið skrítin tilfinning að labba um í skólanum í gær - síðustu skrefin sem nemi. Erlan gekk með mér þessi síðustu skref sem er táknrænt því hún á svo stóran þátt í því að þetta gekk upp. Svo gengum við saman í takt út aftur og lokuðum þar með dyrum þessa skólagöngutímabils "okkar". Já það er ljóst, ég er vel gefinn ;o) ...Erlunni minni og er þakklátur fyrir hana.
Nú liggur fyrir að koma í horf þeim verkefnum sem ég hef ekki sinnt undanfarið, svo sem að skipta um ljósaperur í bílnum, hengja upp jólaljósin ásamt ýmsu öðru. Ég hef ekki verið sá iðnasti við skyldustörfin.
Við vorum í Reykjavíkinni í gær í blíðskaparveðri, það hefur verið vorblíða undanfarið og alls ekki eins og það séu að koma jól. Þau eru víst handan hornsins samt og eins gott að fara að lát sig detta í jólagírinn. Það liggur fyrir að setjast niður og skrifa jóla og áramótakveðju til vina og vandamanna, þetta er fimmta árið sem við sleppum kortakaupum en sendum smá fjölskylduannál í staðinn, bara gaman að því.
Það verður aftur farin kaupstaðarferð í dag, smá dekur fyrir matargötin. Við ætlum að eyða gjafabréfi sem við eigum ennþá eftir fimmtugsafmælin okkar.
Svo er bara að setja sig í jólagírinn og fara að njóta lífsins.
Hvet ykkur til að gera það sama vinir.
1 ummæli:
Frábær árangur hjá þér að klára ritgerðina á svona skömmum tíma :) Ég er mjög montin af þér! OG flott hjá ykkur mömmu að fara og nota gjafakortið ykkar í dag! Knús í Húsið við ána :) Þín Eygló
Skrifa ummæli