laugardagur, desember 25, 2010

Upp er runninn jóladagur

Ákaflega hvítur og fagur. Það snjóaði í nótt og nú er allt hvítt og fallegt. Ekki einu sinni bílför á götunni. Ég vaknaði við snjóþekju sem rann fram af þakinu og krumma vin minn sem flögraði framhjá glugganum mínum og krunkaði svo ég svæfi nú ekki fram á dag.
Ég átti góðan aðfangadag í gær með öllum siðunum og formfestunni sem einkennir þennan dag. Hrund fékk möndluna, í fyrsta sinn í fimm ár sagði hún. Ég fékk þrjár bækur svo ég þarf ekki að láta mér leiðast. Furðustrandir eftir Arnald, Ég man þig eftir Yrsu og svo fékk ég bók um Sigga tófu sem var refaskytta í mínu ungdæmi. Það verður skemmtilegt að glugga í hana.
Ég vaknaði saddur eins og gjarnan á þessum degi. Eftir fullfermi af hamborgarahrygg kemur hrísgrjónabúðingurinn (eins og mömmu) sem er saðsamur og ekki hægt að borða lítið af honum - átak eftir jólin takk. Við settumst svo og horfðum á jólatónleikana í Fíladelfíu, flottir að vanda svo í framhaldinu skoðuðum við Frostrósartónleika frá því í fyrra svo það var tónlistarveisla hjá okkur í gærkvöldi og fram á nótt.

Dagurinn í dag verður líka samkvæmt hefðinni. Hingað kemur ættleggurinn okkar allur og við borðum saman hangikjöt seinni partinn. Það verður gaman að fá þau hingað - mikið gaman mikið fjör. Ég geri ráð fyrir að barnabörnin þurfi að segja okkur eitt og annað af jólunum sínum og kannski sýna okkur eitthvað líka.
Lífið er gott og jólafriðurinn býr hér í Húsinu við ána.

Njótið dagsins... í æsar.

Engin ummæli: