miðvikudagur, maí 29, 2013

Mont

Ég var að henda upp mynd á veiðivefinn minn af stóra fiskinum sem er nú kominn upp á vegg í stofunni. Ég hef reyndar verið allt of slappur að viðhalda vefnum sem gæti verið mjög skemmtilegur, allavega eru veiðiferðirnar ófáar. Kíkið á hann.

þriðjudagur, maí 28, 2013

Og það tókst

Fyrir mörgum árum síðan þegar kofinn hér á Föðurlandi var draumur einn og við dvöldum hér á flötinni í gömlum tjaldvagni lét ég mig dreyma um hvernig ég vildi hafa húsið og umgjörðina.
Ég bloggaði um það eins og sjá má hér á þessu átta ára gamla bloggi: http://erlingm.blogspot.com/2005/08/furland.html

Nú sit ég hér í makindum í kofanum sem ég lét mig dreyma um, með tærnar upp í loft og hlusta á slagverk hundrað ára klukkunnar sem var hluti af draumnum. Hún er hér upp á vegg og telur tímann hægt eins og ég lét mig dreyma um. Húsið lætur ekki mikið yfir sér þegar miðað er við hallirnar sem prýða þessa sveit en það lætur ekki lítið yfir sér þegar litið er til þess að hugmyndin um gömlu sveitarósemdina sem ég bloggaði um á sínum tíma á sér fastan samastað hér.

Hugsandi um þau hverfandi gæði sem felast í því að kúpla sig frá skarkala hversdagsins og hraðans sem einkennir nútímann finnst mér ég vera lukkunnar pamfíll. Ég hugsa með þakklæti til foreldra minna sem höfðu það frumkvæði að skipta þessu túni niður á okkur systkinin svo við gætum átt hér samastað þegar fram liðu stundir.
Staðurinn uppfyllir allar væntingar mínar sem ég hafði í draumum mínum og jafnvel betur en það. Gamla lesstólinn á veröndina vantar þó enn, en það flokkast undir áhugaleysi öðru fremur þar sem mér finnst nýir stólar betri.
Það toppar svo snilldina að Erlunni líkar jafn vel og mér að dvelja hér. Við erum samstíga í þessu sem svo mörgu öðru.

Hér finn ég mér þó alltaf nóg að gera, þannig verða jú þessi gæði til, að maður nenni að skapa umgjörðina. Nýjasta framkvæmdin var að opna á milli húsanna sem gerir það að verkum að ekki þarf að fara út úr húsi til að fara í svefn á kvöldin, húsin eru orðin eitt rými sem gerir þetta allt miklu notalegra, eða svo segir Erlan... og ég er sammála.

sunnudagur, maí 19, 2013

At

Það er hressandi að taka til hendinni svo maður finni fyrir því. Eftir margra mánaða vinnu sitjandi  við skrifborð tók ég hraustlega á því við smíðar. Ég skrapp í sveitina mína, það hefur lengi staðið til að opna á milli húsanna og hefur millibyggingin staðið fokheld í tvö ár. Fimmtudag til laugardags var ég á fullu spani við að ýta þessu verki áfram og afkastaði bara flottum dagsverkum. Búið að klæða gólf, þétta veggi og þak, einangra loft og veggi, opna á milli, setja hurð inn í svefnhús og klæða að utan með vatnsklæðningu.
Þetta þýðir að nú eru húsin samtengd og orðin eitt rými. Millibyggingin er sólstofa í leiðinni og fínasta ívera sem við eigum væntanlega eftir að nota mikið, gott að setjast þar með morgunbollann.

Júróvision var í gærkvöldi. Ég hef nú eldrei verið júróvisionnörd en stundum hef ég dottið í að horfa, sérstaklega ef mér hefur fundist lögin góð. Lagið okkar núna fannst mér skelfilega klént þó Eyþór Ingi hafi gert það úr því sem hægt var að gera. Ég skil ekki hversvegna svona léleg lög eru send utan til að keppa fyrir okkar hönd þegar við eigum svo mikið af frambærilegum hæfileikabúntum sem ættu að geta gert miklu betur.

Nú er hvítasunnuhelgi sem þýðir að það er komið vor og þá hlýtur að vera að koma sumar. Sumarið er æðislegur tími og um að gera að nýta það til að skreyta tilveruna. Ég vona að okkur auðnist að vera svolítið í fríi í sumar og flækjast um landið, það jafnast fátt á við það.
Erlan farin að brölta á efri hæðinni og svo er youngsterinn heima líka, notaleg morgunstund framundan hjá okkur.
Eigið góðan dag vinir mínir.

þriðjudagur, maí 07, 2013

Dagana lengir...

... en vorið sem ég hélt að væri að heilsa okkur fyrir mánuði stoppaði bara og hætti við sýnist mér. Það er þó ekki hægt að barma sér þegar maður sér myndir að norðan og austan, allt á bólakafi í snjó og bændur í mestu vandræðum með fé sem er að hefja burð. Engar bjargir í túnum sem eru á kafi svo varla sést í girðingar og heystabbinn að klárast. Þetta verður bara að kallast fínt hér sunnan heiða þótt kuli aðeins.

Erlan er alltaf á réttri leið og getur meira og meira verið á fótum án þess að leggja sig og hvíla. Hún verður orðin góð eftir sumarið en ég gef því þann tíma.
Vorið hefur verið annríkt líkt og fyrri daginn sem er gott og blessað. Ég held samt að þegar Erlan nær sér þá sé lag að setja stefnuna á meiri frí og hreyfingu t.d. með því að halda áfram því sem við byrjuðum á í hitteðfyrra að ganga á fjöll. Það er hvorttveggja holl hreyfing og þar af leiðandi gott fyrir bakveikt fók og svo er útiveran og útsýnið oft engu líkt.

Ég er að gæla við að komast loksins í að opna á milli í kofanum okkar á Fitinni. Það fer að verða saga til næsta bæjar að það er búið að standa fokhelt í tvö ár og mál til komið að klára.
Veiðigenin eru farin að banka upp á hér á bæ, margir byrjaðir og virðist vorið lofa góðu með sumarið. Ég ætla að vera óvenju fiskinn þetta árið og eiga byrgðir í haust.... orð eru til alls fyrst þúst ;-)

Jæja ætla að fara seinni umferðina af málningu kringum ísskápinn en ég var að klæða kringum hann loksins, búið að standa til lengi.

Njótið vorsins gott fólk.