Fyrir mörgum árum síðan þegar kofinn hér á Föðurlandi var draumur einn og við dvöldum hér á flötinni í gömlum tjaldvagni lét ég mig dreyma um hvernig ég vildi hafa húsið og umgjörðina.
Ég bloggaði um það eins og sjá má hér á þessu átta ára gamla bloggi: http://erlingm.blogspot.com/2005/08/furland.html
Nú sit ég hér í makindum í kofanum sem ég lét mig dreyma um, með tærnar upp í loft og hlusta á slagverk hundrað ára klukkunnar sem var hluti af draumnum. Hún er hér upp á vegg og telur tímann hægt eins og ég lét mig dreyma um. Húsið lætur ekki mikið yfir sér þegar miðað er við hallirnar sem prýða þessa sveit en það lætur ekki lítið yfir sér þegar litið er til þess að hugmyndin um gömlu sveitarósemdina sem ég bloggaði um á sínum tíma á sér fastan samastað hér.
Hugsandi um þau hverfandi gæði sem felast í því að kúpla sig frá skarkala hversdagsins og hraðans sem einkennir nútímann finnst mér ég vera lukkunnar pamfíll. Ég hugsa með þakklæti til foreldra minna sem höfðu það frumkvæði að skipta þessu túni niður á okkur systkinin svo við gætum átt hér samastað þegar fram liðu stundir.
Staðurinn uppfyllir allar væntingar mínar sem ég hafði í draumum mínum og jafnvel betur en það. Gamla lesstólinn á veröndina vantar þó enn, en það flokkast undir áhugaleysi öðru fremur þar sem mér finnst nýir stólar betri.
Það toppar svo snilldina að Erlunni líkar jafn vel og mér að dvelja hér. Við erum samstíga í þessu sem svo mörgu öðru.
Hér finn ég mér þó alltaf nóg að gera, þannig verða jú þessi gæði til, að maður nenni að skapa umgjörðina. Nýjasta framkvæmdin var að opna á milli húsanna sem gerir það að verkum að ekki þarf að fara út úr húsi til að fara í svefn á kvöldin, húsin eru orðin eitt rými sem gerir þetta allt miklu notalegra, eða svo segir Erlan... og ég er sammála.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli