... en vorið sem ég hélt að væri að heilsa okkur fyrir mánuði stoppaði bara og hætti við sýnist mér. Það er þó ekki hægt að barma sér þegar maður sér myndir að norðan og austan, allt á bólakafi í snjó og bændur í mestu vandræðum með fé sem er að hefja burð. Engar bjargir í túnum sem eru á kafi svo varla sést í girðingar og heystabbinn að klárast. Þetta verður bara að kallast fínt hér sunnan heiða þótt kuli aðeins.
Erlan er alltaf á réttri leið og getur meira og meira verið á fótum án þess að leggja sig og hvíla. Hún verður orðin góð eftir sumarið en ég gef því þann tíma.
Vorið hefur verið annríkt líkt og fyrri daginn sem er gott og blessað. Ég held samt að þegar Erlan nær sér þá sé lag að setja stefnuna á meiri frí og hreyfingu t.d. með því að halda áfram því sem við byrjuðum á í hitteðfyrra að ganga á fjöll. Það er hvorttveggja holl hreyfing og þar af leiðandi gott fyrir bakveikt fók og svo er útiveran og útsýnið oft engu líkt.
Ég er að gæla við að komast loksins í að opna á milli í kofanum okkar á Fitinni. Það fer að verða saga til næsta bæjar að það er búið að standa fokhelt í tvö ár og mál til komið að klára.
Veiðigenin eru farin að banka upp á hér á bæ, margir byrjaðir og virðist vorið lofa góðu með sumarið. Ég ætla að vera óvenju fiskinn þetta árið og eiga byrgðir í haust.... orð eru til alls fyrst þúst ;-)
Jæja ætla að fara seinni umferðina af málningu kringum ísskápinn en ég var að klæða kringum hann loksins, búið að standa til lengi.
Njótið vorsins gott fólk.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli