Það er hressandi að taka til hendinni svo maður finni fyrir því. Eftir margra mánaða vinnu sitjandi við skrifborð tók ég hraustlega á því við smíðar. Ég skrapp í sveitina mína, það hefur lengi staðið til að opna á milli húsanna og hefur millibyggingin staðið fokheld í tvö ár. Fimmtudag til laugardags var ég á fullu spani við að ýta þessu verki áfram og afkastaði bara flottum dagsverkum. Búið að klæða gólf, þétta veggi og þak, einangra loft og veggi, opna á milli, setja hurð inn í svefnhús og klæða að utan með vatnsklæðningu.
Þetta þýðir að nú eru húsin samtengd og orðin eitt rými. Millibyggingin er sólstofa í leiðinni og fínasta ívera sem við eigum væntanlega eftir að nota mikið, gott að setjast þar með morgunbollann.
Júróvision var í gærkvöldi. Ég hef nú eldrei verið júróvisionnörd en stundum hef ég dottið í að horfa, sérstaklega ef mér hefur fundist lögin góð. Lagið okkar núna fannst mér skelfilega klént þó Eyþór Ingi hafi gert það úr því sem hægt var að gera. Ég skil ekki hversvegna svona léleg lög eru send utan til að keppa fyrir okkar hönd þegar við eigum svo mikið af frambærilegum hæfileikabúntum sem ættu að geta gert miklu betur.
Nú er hvítasunnuhelgi sem þýðir að það er komið vor og þá hlýtur að vera að koma sumar. Sumarið er æðislegur tími og um að gera að nýta það til að skreyta tilveruna. Ég vona að okkur auðnist að vera svolítið í fríi í sumar og flækjast um landið, það jafnast fátt á við það.
Erlan farin að brölta á efri hæðinni og svo er youngsterinn heima líka, notaleg morgunstund framundan hjá okkur.
Eigið góðan dag vinir mínir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli