miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Erla hitti hjón af Skaganum í dag.

Soffíu dóttir Þórðar á Stillholtinu þar sem við bjuggum í kjallaranum fyrstu árin okkar, og Böðvar mann hennar. Þau hjónin voru hress og voru í spjallstuði. Þau eru mörg árin liðin frá því við þekktum þau betur en í dag. Þau ferðast mikið, ný komin frá Benidorm og Danmörku. Erla var hrifin. Það er ekki á hverjum degi sem mín kona hittir jafn einarða samherja í ferðabakteríufélaginu. Soffíu varð að orði: “Við getum víst ekki bætt árum við lífið okkar en við getum bætt lífi við árin”.....!

Það eru svona setningar sem fá mann til að sperra eyrun. Athyglisverður gullmoli.. Góð sýn á lífið.
Hvað gerir fólk betra við tímann en að skoða veröldina þegar foreldra(uppeldis)hlutverkinu er lokið? Margir gera helst ekkert nema glápa á sjónvarp og hanga heima.
Þetta er vafalítið hluti genanna sem Soffíu gista. Þórður heitinn, pabbi hennar, var einhver glaðlyndasti kall sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Einstaklega réttsýnn og hláturmildur. Það var gaman að umgangast hann.
Þau Þórður og Skarpheiður voru vinafólk foreldra minna til margra ára. Traust fólk, falslaust og gegnheilt.
Skaga árin voru góð.
............Búinn að hugsa heilan hring meðan ég skrifaði þessar línur. Datt alveg óvart ofaní minningapottinn.
Það voru samt orðin hennar Soffíu sem voru hvatinn að þessum pælingum.

Njótið lífsins.
Það er nefnilega í rauninni bara... smáspotti.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æ en gaman. Ég er ekkert smá sammála því sem konan sagði um að bæta lífi við árin:):) Sniðugt...Arna

Nafnlaus sagði...

Sammála og alltaf hægt að bæta lífi við árin - í raun nauðsynlegt að gera það.... en ein spurning: hvenær líkur foreldrahlutverkinu???? Hef alltaf haldið að því ljúki aldrei, það breytist bara.
Kkv. Gittan Gamansama.

Erling.... sagði...

Og það var mark...!
Auðvitað er þetta rétt hjá þér :-)
Ég átti eiginlega við uppeldishlutverkið en kannski líkur því ekkert heldur. Þá fer nú að fjúka í flest skjól.
Uppeldiábörnumíforeldrahúsum - sleppur er það ekki?

Bkv

Kletturinn sagði...

Ja kannski lífið sé ekkert stuttbuxur eftir allt saman eins og hann Einar vinur minn hefur klifað á. Kannski það sé bara ferðabuxur. En víst er gaman að ferðast og ekki síst ef maður á stað til að fara heim á að lokinni ferð. Meira en pínu notalegt. En ég tek nú reyndar undir þá skemmtilegu stefnu að stefna að því að gæða árin sín, dagana sína lífi og fjöri. Gæðum. Kjöti en ekki aðeins mjólk. Innihaldi umfram aðeins umbúðir. Stefnu í stað óra. Markmiðs í stað vinda. Ganga en ekki guggna. Gleðjast í því litla engu síður í hinu stóra. Sjá það sem margir missa af. Lífstifinu í ungviðinu og umfram allt að taka þátt í lífinu í stað þess að bíða bara eftir að það sé búið. Er ekki bara rétt að gera það.