Eftir mjög annasama viku var gott að eiga rólega helgi heima í hreiðrinu. Það má segja að bæði gærkvöldið og dagurinn í dag hafi verið sérlega notalegir. Við vorum tvö heima í gærkvöldi þar sem yngsta dúllan okkar var ekki heima. Ég útbjó fyrir okkur máltíð úr úrvals nauta prime ribs með öllu tilheyrandi. Spjölluðum um heima og geima yfir matnum undir góðri dinnertónlist. Töluðum einna mest um hvað lífið hefur í raun leikið við okkur þó auðvitað hafi skipst á skin og skúrir. Veltum framtíðinni fyrir okkur og skoðuðum núið, hvað við erum að gera þessi misserin. Það er gaman að velta upp svona hlutum, kryfja svolítið sjálfan sig og skoða farinn veg. Hvað höfum við lært og hverju er best að kasta og gleyma. Notalegt með élið berjandi á glugganum. Sérdeilis frábær kvöldstund.
Ég fór að venju fyrr á fætur en frúin í morgun. Það var enn éljagangur. Ég skrúfaði upp ofninn svo það yrði notalegra þegar hún kæmi fram. Hún sefur gjarnan fram undir hádegi á sunnudögum ef ekkert er sem rekur hana á fætur. Svo hellti ég upp á kaffi og kíkti í blöðin. Fór yfir það sem mér þótti fréttnæmt
Ég stoppaði við viðtal við Ellen Kristjánsdóttir söngkonu í tímariti moggans. Skemmtilegt viðtal við konu sem hefur reynt ýmislegt. Hún fór vítt og breitt í viðtalinu m.a. kom í ljós að hún á sterka trú. Ég fann svolítinn samhljóm í þessu viðtali við okkur hjónin þótt aðstæður séu ólíkar um margt. Ein setning sem hún viðhafði höfðaði mjög til mín og einnig Erlu þegar hún las greinina. “Hamingjan er heima” sagði hún. Það er miður að vita til þess að það geta ekki allir tekið undir þessi orð. Það eru nefnilega svo margir sem leita hennar handan hornsins....og finna hana ekki.
Þetta er “stór” lítil setning. Þeir sem geta skrifað nafnið sitt undir hana eru lukkunnar pamfílar. Ég er svoddan lukkubolti að ég get skrifað nafnið mitt feitletrað undir.
Sagt og skrifað..... Hamingjan er heima.
Erling Magnússon
3 ummæli:
Þvilíkt bragðmikil setning - ég er líka í þeim lukkuhóp að geta skrifað undir þetta feit- og skáletrað. Hef einmitt verið að hugsa það mikið um helgina... er ótrúlega rík.
Kkv. Gittan Gíruga.
Mjög svo sammála þér mágur sæll....og það besta er að:
Hamingjan er heima HJÁ MÉR!!!
Hamingjukveðja,
Sirrý litla
Hva...ég gerði comment í gær en það er hvergi svo ég verð að gera nýtt. Langaði að taka undir með þessum orðum þínum að hamingjan er HEIMA...hjá mér því þar býr minn æðislegi eiginmaður og yndislegu rúsínurnar mínar og ég elska þau svooo mikið. FRÁBÆRT!!! Þín næstyngsta Arna
Skrifa ummæli