Drottningin komin á fætur fyrir allar aldir.
Það er óvenjuleg sjón og fátítt hér á sunnudagsmorgnum að drollan sjálf sitji til borðs með manni. Óvæntur heiður og ótilunninn, en skemmtilegur.
Við erum að horfa á fólk tygja sig út í daginn misjafnra erinda auðvitað en allir að puða við það sama ....að skafa frostið af bílunum sínum. Sennilega hefur verið frostrigning í nótt því fólkið virðist í mesta basli við að ná þessu af.
Dagurinn er fallegur og býður örugglega uppá eitthvað skemmtilegt. Við erum t.d að fara í afmæli á eftir . María frænka Erlu er fimmtug og heldur uppá herlegheitin með pompi og prakt í Samhjálparsalnum í dag. Óskast henni hér með til hamingju með daginn.
Ég man vel þegar ég kom fyrst í hús Maríu og Svans. Það var á Snorrabrautinni. Kjallaraíbúð alveg við götuna. Það var á sokkabandsárum okkar Erlu. Þá var Snorrabrautin gott athvarf ungum hjónaleysum. Svanur tók af skarið, lokaði okkur inni í stofu og bauð góða nótt.......
Þetta var árið 1976
Árin tikka á okkur öll........ eins og á grönum má sjá. Ævin er eins og sólargangurinn. Hann endar með því að sólin sest við yztu sjónarrönd.
Því er um að gera að nota dagsbirtuna meðan hún er til staðar og njóta alls þess góða sem lífið hefur upp á að bjóða. Við höfum haft þetta að leiðarljósi allt síðan við gistum á Snorrabrautinni forðum, - með misjöfnum áherslum þó.
Með auknum þroska og nýjum áherslum held ég þó að við höfum aldrei notið lífsins betur eða verið á betri stað en í dag.
Það er athyglisvert en gott vegarnesti inn í framtíðina.
Eigið góðan dag.
3 ummæli:
Ég skil vel að það hafi komið á óvart að mamma var komin á fætur, ég hef líka ótrúlega gaman að því hvað mamma nýtur þess að geta sofið almennilega út um helgar, því að ekki gat hún sofið út um helgar þegar við dæturnar vorum litlar!! Mér finnst þetta bara gott hjá henni!! Þið eruð svo æðisleg :) Ég pant verða eins og mamma þegar ég verð 45 ;) ;) Lov U endalaust, þín Eygló
Að lesa um lýsingu þína á ykkur Erlu við eldhúsborðið að horfa á nágrannana, get ég ekki gert að því að mér varð hugsað til parsins sem stundar sömu iðju og þið. Þetta par kemur fram í þáttunum "Stelpurnar" sem sýndur er á Stöð 2. :)
Er ekki eins mikið í því að horfa á stelpurnar og þú, svo ég veit ekki alveg hvað þú átt við. Hélt samt að þú hefðir náð tökum á þessu í síðustu innlögn....
Skrifa ummæli