sunnudagur, desember 11, 2005

Sælan ein!

Bara tilhugsunin er góð. Einungis morgundagurinn eftir, svo kemur langþráð pása.
Eins og það getur verið gaman og gagnlegt að lesa og safna í eigin sarp þekkingu annarra. Þá er hægt að ofgera því.
Ég er búinn að eyða miklum tíma í lestur undanfarið eins og gjarnan áður í prófatörnum.
Ýmislegt gagnlegt síast inn fyrir, og helst þar vonandi einhverja stund, allavega framyfir próf.

Dagurinn í dag hefur samt verið aðeins öðruvísi. Í morgun fór ég til Benna bróður míns að skera hross. Þ.e.a.s. hrossakjöt. Við ásamt Hlyn skárum hrossið í allskonar bita, sumt í salt, annað í steikur eða hakk, allt eftir því sem okkur sveitaköllunum sýndist. Það verður gott að eiga saltkjöt í tunnu á svölunum í vetur. Ég ætla að steikja buff á eftir. Ef ég man rétt þá bragðaðist hrossabuff gríðarlega vel hjá mömmu í sveitinni forðum, ætla að gera heiðarlega tilraun til að líkja eftir því.

Sem ég sat hér á skrifstofunni áðan og las, fann ég allt í einu yndislega freistandi ilm leggja til mín úr eldhúsinu. Svo góðan að ég leið upp úr stólnum, og sveif fram í eldhús.
Þar stóð þessi yndislega kona mín við pott og hrærði í............súkkulaði.
Hún var sem sagt að undirbúa aðventukaffi fyrir heimilisfólkið á bænum. Ekki laust við að um mig færi sæluhrollur. Það er eitthvað svo ofboðslega notalegt að finna svona umhyggju fyrir sér og sínum.
Það verður víst seint fullþakkað, sú gæfa að spor okkar lágu saman forðum og að hún skildi vilja mig....veit ekki hvar við værum annars!
Ég hef lengi haldið því fram að ég hef einfaldan smekk,
vel aðeins það besta.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eins gott að mamma vildi þig því að annars væri ég ekki til!! Húff hvað það væri leiðinlegt... En já það er svo notalegt hvað hún mamma er alltaf æðisleg og alltaf að hugsa fyrir þörfum okkar allra, ekki bara með því að búa til súkkulaði handa okkur heldur er hún alltaf með augun opin yfir einhverju sem okkur vantar!! Hreint alger perla hún mamma! Þið eruð heppin að eiga hvort annað.. Ég er ánægð með ykkur.. Eyglóin þín

Íris sagði...

Sammála síðasta ræðumanni!!!
Svo er ég hjartanlega sammála að ég verð fegin þegar að kveldi kemur á þessum fallega degi ;)
Þá verð ég komin í jólafrí :D

Íris sagði...

Til hamingju með að vera kominn í jólafrí!!!

Nafnlaus sagði...

Það er rétt hjá þér Erling vinur minn að þú átt sannarlega úrvalskonu. Enda er hún svo vel ættuð.....