föstudagur, desember 16, 2005

Teddi eldfimur í dag!

Veltir upp spurningu um samkynhneigð. http://www.theodorb.typepad.com/ Ég ætlaði að kommenta hjá honum á síðunni hans en þetta er orðið alltof langt mál sem slíkt, svo ég set þetta hér inn. Þetta er samt í tilefni skrifa Tedda á síðunni hans í dag.
Það kvelur mig að geta ekki geta sagt NEI við spurningunni hans án umhugsunar. Spurningin sem hann er svo djarfur að varpa fram er þess eðlis að hægt væri að bollaleggja hana fram og aftur án niðurstöðu. Auðvelt er að færa rök fyrir því að kirkjan sé ekki það skjól sem hún þarf og á að vera. Eins eru færð rök fyrir því að hún sé einmitt skjól þeim sem þurfa á því að halda.
Þar veldur hver á heldur.

Ég, maður sem var látinn drekka trúna úr pelanum mínum sem barn, fastur til margra ára í þeim kenningum sem ég meðtók í þeirri hlýðni, er á þeirri skoðun í dag að alltof margt fólk finnist sem ekki á skjól í kirkjunni. Ástæðan er sú að kirkjunnar menn flokka fólk eftir kennitölum og syndir þess eftir straumum og hentugleik.
Ég ætla, þar sem þetta er komment en ekki pistill, að nefna eitt dæmi um þessa hentistefnu, ég gæti nefnt þau of mörg í viðbót.
Í Lúkas 16:18 er talað um skilnað og endurgiftingu.
“Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann sinn, drýgir hór. Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór.” Og í Matteus 5:32 er svipað orð:
“En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.” Þetta er svo undirstrikað jafnskýrt á enn fleiri stöðum.

Afhverju er ég trúmaðurinn að nefna þetta? Fyrst og fremst vegna þess að mér líkar ekki allt sem ég sé. Ekki bara það sjálfmiðaða starf sem ég sé viðgangast og kallast pólitík, heldur líka þessi staðreynd sem ég held að sé kveikjan að hugleiðingum Tedda að samkynhneigt fólk lifir undir fordæmingu kirkjunnar, meðan annað fólk innan hennar heldur framhjá, skilur, giftir sig aftur og aftur, meira og minna allt með samþykki kirkjunnar ....... Þrátt fyrir ofangreind orð.
Þessi mismunun á gildi orða ritningarinnar flokkast því miður undir hugtak sem Jesús klíndi gjarnan á Faríseana og fræðimennina, kallast “hræsni”.
Ég hef ekki á beinan hátt svarað spurningunni hans Tedda með þessu en af þessari skoðun má kannski draga þessa ályktun: Líklegt er að fordæmingin hafi slæm áhrif á þá sem fyrir henni verða,
hugsi það hver fyrir sig.

7 ummæli:

Karlott sagði...

Sé spurninguna hvergi hjá Tedda?

En að ,,málinu"!
Kirkjan er ekki sinn eigin herra! Kirkjan er samansafn trúaðra sem heilshugar vilja fylgja Jesú Kristi! Kirkjan, meðlimir hennar, lærisveinar og mær eiga að lúta hinum sanna Herra, Jesú Kristi! Oft og því miður, hljómar mál kirkjunnar eins og hún semji sin eigin ,,lög og reglur", fari sínar eigin leiðir andstætt orði Guðs, hefur uppi sínar eigin hefðir og mannasetningar, stundum ofar Guði.

Hver og einn sem hefur tekið við Jesú Kristi sem frelsara sinn mun sjálfur þurfa gera upp sín mál frammi fyrir Guði þegar þess tími kemur...
Við getum ekki valið fyrir náungann hvað hann eigi að gera og hvað hann vill...., EN, það er eitthvað sem gleymist þegar talað er út Guðs orði, en það er: í predikunni þarf einnig að koma viðvarirnar! Það þarf jafnt við uppörvunina, hvatninguna, að ávíta og áminna fólk, sérstaklega þá sem hafa tekið við Jesú, því þeir þekkja sannleikann en fara kannski ekki eftir honum.... Eða þá, þeir halda að þeir geta tekið við Jesú en haldið áfram að lifa í synd

Karlott sagði...

ÚBS.... var birt of snemma!

Hér er framhald.

Sem sagt: það virðist vera of algengt hjá hinum kristnu að tala hálfan sannleika... eins og ef þú játar syndir þínar og tekur við Jesú Kristi þá ertu hólpin/nn... Jú, það er rétt! En, það er einnig hinn póllinn, að óttast Guð, að hlýða Guði, að ekki ónýta náðin sem Hann gaf!
Jesús talar oft um það að við eigum að standa stöðugir, vaka á andlegan hátt og biðja!
Það er eins og þú segir Erling, margt sem virðist vera leyft eða horft framhjá, að mati kirkjunnar, eins og þetta með hjónaskilnaði, framhjáhöld og svo margt margt fleira, en þegar það kemur upp tal um samkynhneigð/kynvillu þá hoppa allir úr sætum sínum og en detta svo í dómarasætið með fordæmingar.
Synd er synd og hún mun leiða til dauða og sá sem velur það að lifa í synd mun velja dauða. En, sá sem snýr sér frá syndinni og að Jesú mun lifa að eilífu!

Það sem mig langaði til að hafa sagt svona í stuttu máli... er að við eigum ekki að fegra mál Drottins, heldur tala það ómengað og beint. Þannig getur áheyrandinn tekið heiðarlega afstöðu um hvort viljinn er að taka við Jesú Kristi eða hafna Honum.

Takk fyrir mig,
Karlott

Nafnlaus sagði...

Það er því miður bilun í kerfistjórn bloggþjónutstunnar sem ég skipti við þannig að síðan mín sýnir ekki færslur síðustu tveggja daga. Þar af leiðandi er umræddur pistill ekki sýnilegur og verður ekki fyrr en líður á kvöldið.

Ég hef verið spurður í dag afhverju ég hafi tekið pistilinnáf síðunni en það hef ég ekki og mun ekki gera.

Takk fyrir að taka þátt í umræðunni.

k.kv.
Teddi.

Nafnlaus sagði...

Ég hef pælt mikið í þessu undanfarna daga, hallast bar að því að verða Kvekari þetta er svo flókið.
Biblían fer ekki í grafgötur með að samkynhneigð sé synd. En það eru ótal aðrir hlutir sem eru synd. Mér hefur verið kennt að synd þýði aðskilnað frá Guði og algjöran aðskilnað. Ég var nú að lesa í Biblíunni minni og fór að hugsa hvernig getur það staðist.
Salómon konungur átti fjöldan allan af konum og hjákonum, samt veitti Drottinn honum blessun, hann kvæntist til þess að stofna til viðskipta við aðrar þjóðir og halda friðinn. Davíð konungur missteig sig oft, það gerðu Nói og Abraham á undan og svo nær allar persónur sem Biblían segir okkur frá.
Ég efa ekki að syndin skilji okkur frá Guði en þá er sá aðskilnaður ekki af Drottins hendi, heldur er það okkar fordæming sem hindrar okkur í að leita til hans. Ég trúi því að Guð sleppi ekki hendinni af eignarlýð sínum, hver sú sem syndin sé sem hann drýgir.
Lög Guðs ber vissulega virða og halda okkur til blessunar og til virðingar við Skaparann, þau vernda okkur og styrkja. Drottinn setti þau ekki til þess að auglýsa hver sé syndugur og hver ekki. Hanns orð segir: allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð ( róm 3.23)

Ég las á gospel.is vef Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi hver væri tilgangur hennar þar standa eftirfarandi orð:
,,Hver einstaklingur er bara eins og ein lítil grein á stóru tré. Sumar eru brotnar og aumar aðrar eru sterkar og öflugar.
Þessar aumu þurfa stuðning og athvarf meðan hinar sterkari geta veitt stuðninginn og hjálpina. Um það snýst kirkjan. Þar er tilgangur hennar. Páll postuli hvetur kirkjuna til að taka að sér hina óstyrku í trúnni án þess að leggja dóm á skoðanir þeirra. Þar er markmið kirkjunnar í hnotskurn.” ( gospel.is)

Ef kristnar kirkjur eru þetta athvarf þá þurfum við ekki að óttast það að þær eigi þátt í því að ræna menn lífslöngunninni, ef þær aftur á móti eru ekki þetta athvarf þá eru þær að mínu mati að bregðast skyldu sinni. Hvítasunnumenn virðast hafa markmiðin á hreinu, og vonandi eru þau virt og virk meðal allra kristinna safnaða hvað svo þeir heita. Þar sem þessi orð eru höfð í heiðri þurfum við ekki að óttast að kirkjur eigi þátt í því að ræna menn lífslöngunninni.

Þar sem ég hef syndgað á ég enga steina til þess að grýta náungann, ég tel það engan veginn mitt hlutskipti að vera í dómarasæti, heldur frekar benda mönnum á Drottinn sem sannfærir menn um synd réttlæti og dóm. Má vera að ég hafi miskilið þetta allt enda fer grái grauturinn í heljarstökk og flikk flakk á öllum þessum pælingun mínum, þá endilega leiðréttu mig. Minni fólk á Jakopsbréfið 2 kafla 9-13 vers.


Jak 2 , 9-13

Kveðja, Davíð

Heidar sagði...

LÆRÐUR maður sem hét Nikodemus kom til Jesú þegar hann skorti þekkingu og svör.

Orð Guðs hefur þau svör sem þið leitið eftir. Og skiptir þá ekki máli hvað talað er um, þ.e. samþykkta hegðun eða ekki. Við eigum fyrst og fremst að leita eftir svörum í Orðinu en ekki í kirkjudeildum og mismunandi kenningum þeirra og áherslum. Það sem Orðið kallar synd er synd, en Orðið talar einnig um margt annað en synd, m.a. NÁÐ.

Jesús sagði við Nikodemus: "Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf."

Mér finnst gott, jafn ófullkominn og ég er, að dvelja í þessum orðum Jesú og því vera fullviss þess að þegar ég hef fullnað skeiðið og varðveitt trúna, mun ég að eilífu dvelja í faðmi Frelsara mín Jesú Krists.

Nafnlaus sagði...

Það hafa allri svo mikið til síns máls. Ætli maður sé ekki bara sekur um það að vera hræsnari og þurfi að biðja Guð um hjálp og leiðsögn.
kveðja Davíð

Erling.... sagði...

Einn stærsti gallinn við hentistefnu kirkjunnar með ákvæði Biblíunnar, er sá að hún tekur algerlega bitið úr þessari fullyrðingu að svörin sé öll að finna í Biblíunni. Það verður holhljóð úr því.

Ef fólk á almennt að taka mark á þeirri fullyrðingu þarf veruleikinn innan kirkjunnar að endurspegla það sem í Biblíunni stendur, en ekki að prédikað og aktað sé eftir hentugleik hverju sinni, eitt tekið út og hamrað á því, meðan litið er framhjá öðru jafnskýru af því það hentar betur.

M.ö.o. það verður að vera trúverðugleiki. Ef fólk finnur hann þá hlustar það.