Þegar ég var lítill drengur man ég eftir myndskreyttri bók sem átti að fjalla um sköpunina. Jesú var að leira dúfur. Þegar hann var búinn að leira dúfurnar blés hann á þær og þá lifnuðu þær við og flugu burt.
Sennilega getur þessi gamla sögn verið jafnsönn og hvað annað sem sagt er um sköpunina . Ég held að leir geti verið Honum jafneðlilegt byggingarefni og allt annað sem eðlisfræðin getur sýnt okkur fram á að virki. Fyrir utan allt hitt sem við höfum ekki fundið enn.
Vísindin eru alltaf að teygja sig lengra og lengra í viðleitni sinni til að seðja eðlislæga forvitni mannsins. Eðlisfræðingar fá sífellt meiri og meiri skilning á efnisheiminum. Mengi mannsins er kortlagt. Erfðafræðin er komin svo langt að maður fær hálfgerðan hroll. Klónun er staðreynd. Að endurvekja útdauðar dýrategundir er handan hornsins eða um leið og heilir litningar eða nógu margir bútar úr þeim finnast svo hægt verði að raða þeim saman í eina heild. Þá getum við farið að lífga við t.d. loðfíl, sverðtenntan tígur eða önnur forsöguleg dýr.
Er maðurinn að teygja sig inná verksvið Guðs eins og heyrist víða frá kristnum mönnum?
Ég er ekki viss um það. Hvað þýðir það að Guð skapaði manninn í sinni mynd? Kannski er það ástæðan fyrir því að maðurinn er fær um að nota byggingarefni Guðs, eðlisfræðina.
Þýðir það að nota þá þekkingu sem Guð hefur gefið okkur, að við séum að seilast inná svið Hans?
Er hægt að gera eitthvað úr engu?
Við verðum þá að vita hvað er ekkert. Við getum t.d búið til ógnarkrafta með því að kljúfa atóm sem virðist hverjum meðalmanni vera ekki neitt.
Við sækjum okkur ýmis konar orku hingað og þangað og virkjum hana í þjónustu okkar. Skilningur okkar eykst stöðuglega.
Þegar afi minn virkjaði bæjarlækinn forðum, urðu bændur sem áttu land neðar við lækinn mjög óhressir út í hann. Þeir vildu líka virkja, sem þeir náttúrulega töldu ekki hægt þar sem afi var búinn með allt rafmagn úr læknum.
Ætli fávísin sé ekki einmitt það sem setur okkur á þann stað að finnast við vera komin á stað sem Guð á einkarétt á.
Allavega virðist allt þetta byggingarefni vera til staðar. Annars værum við sannarlega ekki að gera þessa hluti. Allt þetta sem var okkur ósýnilegt, var þarna samt. Og margt sem við sjáum ekki í dag, er þarna samt. Þegar maðurinn skapar er hann bara að vinna með byggingarefni sem Guð hefur sett í kringum okkur, það sama og hann notar sjálfur. Að vísu hlýtur höfundur alls að vita langtum meira en við og notar án nokkurs vafa allskyns lögmál eðlisfræðinnar sem við höfum ekki komið auga á enn, þó þau séu þarna.
Ef miklihvellur er málið, afhverju þarf það þá að stangast á við trú manna á Guði?
Miklihvellur styðst við þá hugmynd að allt efni hafi orðið til úr engu. Gríðarleg sprenging og allur massi himingeimsins varð til.
Miklihvellur ætti frekar að ýta undir trúarvitund manna, því hver annar en Guð getur smellt fingri og, bang, allt varð til....?
Spáðu í það....!
3 ummæli:
nákvæmlega... ég held að ég gæti bara ekki verið meira sammála.. fólk er svo skrítið, eins og þegar þú talaðir um fólk sem trúir ekki að risaeðlur hafi verið til.. stendur kannski á safni með beinagrindina f. framan sig og segir "NEI, þetta er EKKI til" silly það =)
en já góður pistill.....
Lots of love
Hrund
Ótrúlega er ég sammála henni Hrund, hvernig er hægt að neita því að risaeðlur hafi verið til ef það hafa fundist beinagrindur af þeim!!! Fólk getur verið svo ótrúlegt! Hafðu það ýkt gott :) Lov U , Eygló
Skemmtilegur pistill! Gat ekki gert að því að Lúsífer kom í huga mér. Vegna fegurðar sinnar og valda hrokaðist hann upp og vildi vera líkur Guði. Það var undanfari falls hans.
Maðurinn þarf að stíga varlega til jarðar. Hvenær verður snilld hans og völd með þeim hætti að hann telur sig jafnan Guði og ekki þurfa á honum að halda? Kannski er styttra í fall hans (mannsins)en okkur órar fyrir.
Skrifa ummæli