laugardagur, maí 13, 2006

Prófalok

Það hefur tekið svolítið á þetta vorið að beita sig hörðu og loka sig inni við lestur. Það má því segja að ég sé frelsinu feginn og stökkvi út í vorið.....fagnandi.

Ég var sem sagt í síðasta prófi ársins í morgun. Tilfinningin var góð. Ég fann fyrir einhverri ómótstæðilegri löngun til að öskra og láta eins og fífl. Ég lét það ekki eftir mér....allavega ekki ennþá.

Ég tók saman að gamni hvað ég hef verið að gera þessi ár. Ófullkomin nálgun á lestri til BA gráðu í lögfræði gæti verið með öllum bókum, dómum, álitum, glósum, glærum og ítarefni, á bilinu 25 - 30 þúsund blaðsíður. Þetta er miðað við að efnið sé lesið einu sinni. Lesturinn er líklega mun meiri þar sem efnið er oftast lesið aftur fyrir próf að stórum parti. Kæmi ekki á óvart þó það lægi nær 40 - 45 þúsund síðum Ég hef setið um 1.100 fyrirlestra. Unnið um það bil 70 verkefni til prófs og tekið 23 lokapróf. Og svo eitt stykki BA ritgerð núna í lokin.

Þetta er hálf ógnvekjandi fjall og eins gott að það blasti ekki allt við þegar ég stóð við rætur þess og lagði af stað, farinn svolítið að silfra í vöngum....!
Ég las fyrstu bókina í síðustu útilegu ársins 2003. Þá vorum við í fellihýsinu að Laugarási í Biskupstungum. Þá hélt ég að ég væri nokkuð vel að mér í lögfræði. Nú veit ég þó allavega að ég vissi ekkert, maður hefur þá lært eitthvað. Mér sýnist þetta vera þannig að eftir því sem maður lærir meira því betur sér maður hversu lítið maður veit. Kannski er það besta skólunin.

Ég ætla að viðurkenna hér að ég gerði mér ekki grein fyrir hversu gífurleg þekking liggur að baki akademísku námi. Ég vissi ekki að til væri fólk með svona ótrúlega hæfileika sem liggja að baki þessu öllu.
Hugsun mannsins er mikið undur. Rökhugsun getur af sér þau lífsgæði sem við búum við í dag.
Merkilegt ekki satt.

Þessi þrjú ár hef ég notið góðs byrs í seglin frá því besta sem ég á, fjölskyldunni minni. Dugnaður og nægjusemi Erlu minnar, stuðningur hennar og annarra meðlima fjölskyldunnar hefur gert þetta mögulegt. Skilning og nægjusemi Hrundar minnar met ég mikils. Það er ekki endilega auðvelt að vera yngst og dekurrófa þegar pabbi sest allt í einu á skólabekk og hefur minni fjárráð. Því þá er minna hægt að veita af ýmsum lífsins gæðum.
Það er vandfundið alvöru ríkidæmi sem jafnast á við mitt.

Já hann er ánægður með prófalok. Hann ætlar út í vorið á morgun.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

váááá... og mér fannst mikið að þurfa að lesa 240 bls. fyrir sögupróf..


hehe þetta verður best þegar þetta er alveg búið;)

gangi þér vel með afganginn

lots of love
Hrund

Kletturinn sagði...

Innilega til hamingju með próflokin. Gangi þér vel áfram. Kveðja Kiddi Klettur

Íris sagði...

Til hamingju með að vera búinn með prófin! Þekki tilfinninguna að labba út úr síðasta prófinu!! Rosa gott!
Gaman að þú gast loksins komist út í náttúruna ;)
Sjáumst!

Heidar sagði...

Fjallgöngumenn segja að fátt jafnist á við að ná tindinum eftir erfiða fjallgöngu. Þú átt aðeins eftir að reisa fánann á toppnum (útskrift), skil vel að tilfinningin sé góð. Til hamingju gamli minn, þú átt hrós skilið!! :-)