Það hefur margt á dagana drifið undanfarið, sem endranær. Titillinn hér að ofan er nafnið á nýja firmanu mínu. Þetta er félag með margþætta starfsemi. Fyrir það fyrsta er þetta lögfræðifirma enda nafnið samsett úr lögfræðitengdu orðunum LEX og OR. Lex táknar réttarheimildir og Or er byrjun á Orator.
Lexor er annarsvegar ráðgjafafyrirtæki á byggingamarkaði með áherslu á lögfræðiráðgjöf til verktaka en líka til viðskiptamanna þeirra.
Hin starfsemi firmans er byggingastarfsemi. Þar sem ég er líka byggingameistari var ekki úr vegi að næla sér í smá sneið af hasarnum sem ríkir á þeim markaði núna.
Hugmyndin kviknaði um daginn að fara af stað og reka þetta svona fram að mastersnáminu næsta haust og svo kannski meðfram náminu.
Ég er búinn að ráða nokkra Pólverja í vinnu og er kominn með verkefni fram á vor. Þeir eru afbragðs verkmenn og samviskusamir. Það skemmtilega við þetta allt er náttúrulega hasarinn og atið sem fylgir svona rekstri og líka sú staðreynd að snertiflöturinn stækkar og nú þegar eru lögfræðileg verkefni að detta inn á borð sem tengjast þessu öllu. Bara gaman að þessu.
Eins og lesendum síðunnar er kunnugt vorum við hjónakornin í Köben um daginn. Þeir sem okkur þekkja vita að borgin sú er í nokkru uppáhaldi hjá okkur. Ferðinni er enn heitið í gamla höfuðstaðinn. (Köben var einu sinni höfuðborg Íslands eins og allir vita)
Nú er um að ræða vinnustaðaferð hjá Erlu. Örninn er svona grand á því að bjóða starfsfólkinu í helgarferð til Köben. Við gistum á Hotel Imperial, lúxushóteli rétt við Ráðhústorgið.
Við þurfum að vakna snemma í nótt, svona ca. kl. 3. Tekur því varla að vera að leggja sig.
Eitthvað skemmtilegt eru þau búin að plana að gera svo maður getur farið að hlakka til. Ég hef reyndar eitthvað heyrt búðarhugtakið nefnt á nafn en lokað eyrunum jafnharðan fyrir því, og svarað fólkinu til að kannski ættum við að reyna að hittast eitthvað í Köben, því fyrir svo skemmtilega tilviljun yrðum við þarna um leið og þau.
Ég fæ svona létta gæsahúð niður hrygglengjuna við tilhugsunina um búðirnar..... ekki af tilhlökkun.
Ég er búinn að vera að dunda við að setja upp eldhús hér heima, en eins og þeir vita sem hafa heimsótt okkur var eiginlega engin eldhúsinnrétting í húsinu við ána. Það var því ekki hjá því komist að setja nýja innréttingu. Það er því að verða vistlegra hér með tímanum og sum rými hússins tilbúin.
Við erum jafnánægð hér sem fyrri daginn. Veturinn er fallegur og áin ærið breytileg eftir hvernig viðrar. Hún er skemmtilegur nágranni. Annar nágranni okkar bankaði hér upp á um daginn þegar ég var að hamast í eldhúsinu og sagðist vera búinn að sjá að hér væru framkvæmdir í gangi og spurði hvort hann mætti kíkja inn. Það var auðsótt og hafði ég gaman af heimsókninni. Þetta er heimilislegt og sveitó en svona er sveitin. Gott að búa hér. Ég er samt feginn að nágranni minn áin er ekkert að banka uppá..
Jæja ég ætla að fara að koma mér í ferðagírinn, sækja töskur upp á háaloft og horfa á Erlu pakka okkur niður (ekki einu sinni grín) Það er hennar deild, enda kvenmannsverk.
Hún vill hafa þetta svoleiðis – skil ekki afhverju. Hefur kannski eitthvað að gera með krumpur og svoleiðis.
Köbenhavn nu kommer vi...............
3 ummæli:
Hafið það rosa gott í Köbenhavn og njótið ferðarinnar botn! Svo get ég ekki beðið eftir að koma í heimsókn og sjá nýja eldhúsið ykkar. Trúi ekki öðru en að það sé rosa flott!
Prófkveðja :D
Íris
Til hamingju með nýja fyrirtækið og ekkert smá töff nafnið á því! Glæsilegt alveg hreint! Tek undir með Írisi, ég hlakka líka til að koma og sjá nýja eldhúsið, er örugglega mjöög flott, enda ekki við öðru að búast! Hafið það gott í Köben og við sjáumst fljótlega :) Kveðja Eygló :)
Skemmtilegur lestur! Til hamingju með nýja firmað, Guð sér fyrir sínum svo ég efast ekki um að það komi til með að blómstra. Snilldarpælingar um Köbenferðina, ég hló upphátt :) Hafið það sem allra best og njótið helgarinnar.
Skrifa ummæli