Það er ljóst að veturinn ætlar að banka snemma uppá þetta árið. Í gær var vetrarlegt um að litast hér og ekki nóg með það heldur fylgdu umferðaróhöpp eins og gjarnan verður þegar fyrsti snjórinn (slyddan) fellur. Ég verð nú að segja að mér finnst hann freklega snemma á ferðinni í ár, varla komið haust.
Ég er þakklátur maður.
Hrundin mín fór af stað til höfuðborgarinnar í gærkvöld. Ég hafði skoðað vefmyndavélina sem staðsett er á Hellisheiði á internetinu áður en hún fór og sýndist marauð gata.
Stuttu eftir að hún lagði af stað var kominn þykkur krapi á veginn.
Eins og reyndir bílstjórar vita er það eitt allra hættulegasta færi sem hægt er að aka í. Við erum auðvitað ekki búin að skipta yfir á vetrardekk því skv. mínu dagatali á að vera nánast sumar ennþá.
Hún missti stjórn á bílnum og hann snerist í hring á veginum eftir að hafa farið yfir á rangan vegarhelming áður og stoppaði hálfur útaf að aftan. Þarna er bratt niður og skurður. Ég er þakklátastur fyrir að ekki var umferð á móti á þessu augnabliki, að enginn var á eftir henni sem náði ekki að stoppa og skurðurinn tók ekki á móti henni. Hellisheiðinni hafði verið lokað vegna slyss svo hún sneri við heim. Á heimleiðinni missti hún svo bílinn aftur....... án slyss.
Hverjum er ég þakklátur? Þeim sem ég hef beðið um að vera með henni og gæta hennar á vegum hennar frá því hún fæddist. Ég þakka þetta varðveislu Guðs, hef enda engan mælikvarða sem sannar það eða afsannar, bara trúi því.
Annað er það að frétta héðan úr sveitinni að við vorum með matarklúbb í gærkvöldi. Kiddý og Baddi ásamt Heiðari og Sigrúnu voru með okkur. Það var skemmtilegur góðra vina fundur og maturinn hennar Erlu eins og henni einni er lagið.
Matarklúbbar eru skemmtileg fyrirbæri sem sælkerar vítt og breytt stunda..... jafnvel víðar en í mannheimum.
Á tveggja mánaða fresti hittumst við hjá hvert öðru og bjóðum til sælkeraveislu. Þá er tjaldað því besta hverju sinni og eldað af mikilli innlifun.
Undir miðnætti í gærkvöld var svo heljarinnar flugeldasýning í tilefni kvöldsins. Risa flugeldar, tívolíbombur eins og þær gerast flottastar, risa kökur sem skjóta í nokkrar mínútur og glæsileg blys. Það var toppurinn.
Reyndar var sýningin hugsanlega ekki bara í tilefni matarklúbbsins. Það er einn annar möguleiki. Það kann að vera að 60 ára afmæli Selfosskaupstaðar hafi haft einhver áhrif á þetta líka........ Það verður allavega, hvernig sem á það er litið, erfitt fyrir þau að toppa okkur eftir þetta.
Erlan var að koma niður enda hennar tími kominn (hádegi) svo ég ætla frekar að fá mér morgun....eða öllu frekar miðdags kaffi með henni.
Njótið dagsins, hann er góður.
2 ummæli:
Hann er hollur sá sem hlífir og ég er svo sannarlega líka þakklát Guði fyrir varðveislu hans í gær.
Þetta með matinn "minn" þá er það bara rétt vegna þess að við Erling erum eitt því hann sá alfarið um að elda þennan lika frábæra mat sem við gæddum okkur á í gærkvöldi vinirnir. Þannig á ég heiðurinn með honum :o)
Mikið er gott að geta falið börn og ástvini í Herrans hendur. Frábært að hann hélt verndarhendi yfir frænkunni minni á þessari ferð.
Drottinn blessi ykkur öll.
kveðja kær Kiddi Klettur
Skrifa ummæli