mánudagur, maí 12, 2008

Helgin var góð.

Við skruppum í kofann á laugardags eftirmiðdag. Það var ljúft að vanda. Núna er fuglalífið í algleymi. Ótrúlega skemmtilegt að vakna við sinfóníuna þeirra. Ég vaknaði upp um sex leytið á sunnudagsmorguninn við nótu sem átti ekki að heyrast í þessari sinfóníu. Ég lá og hlustaði hvort ég hefði heyrt rétt, og jú það var rétt, þarna einhversstaðar í nágrenninu var hani að vekja sínar hænur til morgunverka.
Hanagal, rammíslenskt eins og í gamla daga. Ég verð að segja að mér fannst það bara vinalegt og skemmtileg aukanóta í sinfóníuna.

Á sunnudeginum voru gestakomur. Gylfi og Christina kíktu óvænt, voru í bíltúr og sáu að við vorum komin, þau voru drifin í kaffitár. Meðan þau voru hjá okkur hringdi síminn og Kjartan og Sue boðuðu komu sína. Þau birtust einni mínútu síðar, voru rétt hjá okkur. Alltaf gaman að fá gesti. Hildur systir kíkti svo þegar þau voru að fara.
Hjalli bróðir var í sínu húsi ásamt konu og einhverju af börnum. Við sátum góða stund og spjölluðum við þau og Hansa og Auju sem kíktu líka þangað.
Þar sem Erla hefur ekki verið sérlega hress (kvefuð) undanfarið ákváðum við að drífa okkur heim í eftirmiðdaginn. Það er alltaf gott að koma heim. Grilluðum svínahnakkasneiðar fyrir okkur og youngsterinn sem var heima að læra, enda á kafi í prófum.

Í dag komu svo allar hinar skvísurnar okkar með sitt fríða föruneyti, nema stelpurnar hennar Örnu en þær voru hjá pabba sínum. Það var glatt á hjalla eins og venjulega þegar við hittumst öll. Einstaklega gott að vera svona saman. Við enduðum daginn með sameiginlegum kvöldverði.

Ég skrapp samt í útreiðatúr á sleggjunni (nafnið á hjólinu mínu). Sá skreppur endaði í Fljótshlíðinni. Veðrið var einstakt í dag og gaman að hjóla. Vindurinn hlýr og vorlykt í lofti. Því fylgir mikil frelsistilfinning að þeysa svona með vindinn í fangið.

Núna eru bara róleg notalegheit hér í húsinu við ána, Erlan mín að raða Egyptalandasmyndum í hinni tölvunni og youngsterinn er úti á palli að læra. Henni finnst ekkert notalegra en að læra undir berum himni undir hitaranum á veröndinni. Enda, hvað er betra en íslenska fjallaloftið, árniður og fuglasöngur.

1 ummæli:

Íris sagði...

Takk fyrir okkur í gær! Það var mjög gaman og notalegt að kíkja til ykkar eftir að hafa ekki komið þangað í langan tíma!
Sjáumst ;)
Íris