Ég var ánægður með orð verðandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar á forsíðu Moggans í morgun um sjávarútvegsmál ESB.
Og ég er þakklátur núverandi stjórnvöldum fyrir ákveðni þeirra að standa utan ESB. Það yrðu stærstu mistök Íslandssögunnar að gangast undir hatt þessarar nýlendustefnu. Það er gott fyrir land og þjóð að eiga sig sjálf þegar fram í sækir.
Við erum eigin herrar í okkar fallega landi og ráðum auðlindum okkar sjálf.
Til þess börðumst við undan einveldi Danakonungs. Til þess var slagurinn um fullveldið og til þess var sjálfstæðisbaráttan háð. Til þess vörðum við landhelgina okkar með kjafti og klóm og sigruðum enska ljónið. Þessi frækilegu afrek forfeðranna sem við megum aldrei gleyma.
Ég skil ekki þann Íslending sem er tilbúinn að afsala sér fullveldinu og gangast aftur undir ok erlendra peningavelda. Fólk ætti að kynna sér sögu þjóðarinnar og skoða myrkustu tímabil hennar, en það er tíminn sem við beygðum okkur undir einveldi Danakonungs. Alþingi Íslendinga sem var virkt afl var lagt niður en þess í stað voru lagaboð konungs birt. Íslendingar réðu engu um framtíð sína og gæfu. “Einveldistímabilið er eitt hið allra ömurlegasta tímabil í sögu íslensku þjóðarinnar”. (Gunnar G. Schram, Stjórnskipunarréttur)
Ég er hræddastur um að misvitrir stjórnmálamenn, með inngöngu í ESB á stefnuskrá sinni, eigi eftir að komast til valda og stíga þetta ógæfuspor.
Guð forði okkur frá þeim.
1 ummæli:
Sammála, enga lénsherra hingað. Það er að segja ef það er ekki orðið og seint!
Skrifa ummæli