miðvikudagur, september 01, 2004

Óður til mömmu

Þetta varð til fyrir prófin í vor þegar ég var að lesa yfir mig í fræðunum.
Öll eigum við rót okkar í mömmu. Mamma er gjarnan best.
Mamma mín ól okkur upp við erfiðari kringumstæður en þekkjast í dag. Þvegið í ísköldum bæjarlæknum þó hún væri komin að barnsburði. Ekki alltaf full kista af mat og ekki alltaf heitt og notalegt. Oft á tíðum ótrúlegt, miðað við nútímaþægindi.
Við lifum góða tíma.


Ljóðrænum línum mig langar að henda
línum sem á nokkrar staðreyndir benda
Mér datt þetta í hug nú fyrir skömmu
Hvar værum við til dæmis án hennar mömmu
Baslið og stritið er á sig hún lagði
haukur í horni jafnvel þegar hún þagði
Hvernig hún annaðist börnin sín átta
svo lentum við ekki utangátta
Sauma okkur flíkur úr gömlum fötum
stoppa í sokka sem duttu út í götum
Eitt var það sem hún vildi ekki orða
að ekki var alltaf nóg til að borða
Merkilegt hvað þá hún gat
gert úr engu góðan mat.
Bera henni vitni verklúnar hendur
æðrast aldrei hvernig sem á stendur
Trúi ég gjörla að á þessum árum
skolandi þvottinn á lækjarsteinum sárum
hafi vangarnir mömmu oft verið skreyttir með tárum.
Að eilífðar ósi árin renna
nú man hún mamma tímana tvenna
gömlu árin burtu runnin
sum þeirra fallin í gleymsku brunninn
Nú hópinn sinn enn, hún vegur og metur
blind, en gerir samt eins og hún getur
slitnar seint þessi móðurstrengur
Það er okkar stærsti fengur
er tímaklukkan áfram gengur
að eftir stendur ævistarf
okkur fært sem góðan arf.
Orð þessi færð í lítinn ramma
segja - takk fyrir mamma.

EM

3 ummæli:

Kletturinn sagði...

Gott hjá þér Erling, enda áttu sérdeilis væna móður og góða. Alltaf var hún mér hlý og notaleg þann stutta tíma sem ég bjó við framúrskarandi gestrisni hennar á óhörnuðum unglingsárunum. Skilaðu til hennar bestu kveðjum. Kiddi Klettur

Nafnlaus sagði...

Góð orð sögð um góða konu.
k.kv. Teddi.

Nafnlaus sagði...

Pabbi!!
Þetta er bara með fallegri ljóðum sem ég hef lesið!! Alveg ótrúlega flott! Ég vona að mín börn hugsi svona fallega til mín þegar ég eldist eins og þú hugsar um þína mömmu.
Þín elsta dóttir
Íris E