sunnudagur, janúar 02, 2005

Gott ár að baki.

Nokkrir atburðir standa upp úr. Tveir meðlimir bættust við fjölskylduna á árinu, fyrst Sara Ísold og svo Katrín Tara. Það er mikil blessun.
Einnig trónir hátt ferð okkar á Vestfirði í sumar. Þar gafst mér kostur á að skoða í fyrsta sinn bernskustöðvar mömmu, Langabotn í Geirþjófsfirði. Ævintýralegur heimur sem alltaf hefur verið ljómaður birtu bernskunnar minnar. Mamma var nefnilega vön að segja okkur sögur að vestan sem hjúpuðust ævintýraljóma í huga barnsins. Þetta var upplifun.

Laganámið hefur gengið vel þó vissulega megi segja, að ég fari ekki í gegnum það án fyrirhafnar. 104 nemendur hófu nám, en nú eru milli 65 og 70 nemendur eftir. Ég vona að þessi hópur sem eftir er haldi út og verði lögfræðingar. Þetta er sterkur hópur og framúrskarandi einstaklingar.
Það er svolítið skrítið, en gaman, að finna hvernig ný þekking safnast smám saman í sarpinn. Þekking sem vonandi á eftir að verða okkur gott fley til framtíðar á lífsins ólgusjó.

Erla hefur staðið sig með slíkum sóma á árinu í sinni vinnu að hún hefur varla við að taka við nýjum stöðuveitingum. Nú síðast í desember tók hún við starfi framkvæmdastjóra Verkfræðistofunnar Verkvangs, www.verkvangur.is eftir að hafa áður tekið við stöðu fjármálastjóra, sem hún sinnti jafnhliða skrifstofustjórastöðunni sem hún var ráðin í í byrjun. Segja má með sanni að þarna séu hæfileikar hennar metnir að verðleikum. Ég er afar ánægður með framgang hennar í vinnunni og verð að segja Ragnari til hróss að hann er naskur á starfsfólkið sitt og sér hvað í því býr. Í því felst styrkur góðs stjórnanda. Verkvangur er í stöðugum vexti enda er um að ræða frumkvöðlastarf á sviði ýmissa þátta byggingarframkvæmda.
Starfsskipti Erlu eru einhver mesta blessun sem á okkar fjörur hefur rekið.

Við Erla höfum notað tímann vel þetta árið til að rækta það sem mest er virði, fjölskylduna og hvort annað. Fjölskylduböndin eru styrk og afar fátt sem nær að hagga þeim kletti. Alltaf skýrist myndin af lífinu sjálfu og áherslum sem setja þarf hverju sinni. Verðmætamatið er kristaltær mynd, af fólki, líðan þess, sátt við náungann, Guð, góð heilsa og að lokum, hafa í sig og á. Verðmæti sem ekki eru metin til fjár, (nema kannski síðast talda).

Ekki verður með sanni á móti mælt að hópur þeirra sem við töldum vera vini okkar hefur þynnst (lífið er ekki bara sæla).
Rættist þar með hluti spádómsorða sem við fengum inn í líf okkar. Um þjónustu nokkra sem okkur var falið að inna af hendi. En þar kom fram að óvinurinn myndi snúa vinum okkar gegn okkur ef ekki findust fimm fyrirbiðjendur sem myndu biðja okkur í gegn um hremmingarnar sem á undan myndu ganga. Lífið er skrýtið. Hinn hluti spádómsorðanna er ekki enn kominn fram. Spennandi þegar það verður. Það strikar undir gildi spádómsorðanna að þessi hluti þeirra skuli rætast svo rækilega..!
Eftir stendur samt hópur sem við með sanni getum sagt að séu vinir okkar. Það eru verðmæti sem ekki verða metin til fjár og varla tekin frá okkur, úr þessu.
Ég vil nota tækifærið hér og þakka ykkur öllum sem staðið hafið gegn þessum vinafleyg óvinarins og styrkt vináttuböndin við okkur ef eitthvað er. Þið eruð perlur, Guðsgjöf til okkar.

Við erum fyrst og fremst þakklát fyrir árið sem var að líða og lítum björtum augum til nýhafins árs.
Það ber í skauti sér ný og spennandi tækifæri sem við ætlum að nýta vel.

Guð blessi ykkur öllum nýja árið.

Engin ummæli: