“þakka þér fyrir að ég er ekki eins og þessi tollheimtumaður”. Sagði Faríseinn.
Ég verð að lýsa undrun minni yfir skrifum Snorra Óskarssonar á Gospel vef Hvítasunnukirkjunnar: http://www.gospel.is/fullpistlar.php?thistown=12&idnews=34 þar sem hann er að skrifa um hina nýju biblíuþýðingu Hins íslenska biblíufélags. Ég er ekki að leggja dóm á hana með þessum pistli því ég get ekki verið meira sammála um að ekki má breyta þýðingunum eftir geðþótta.
Ég hef alltaf talið Snorra vel þenkjandi mann, þó ég sé sjaldnar sammála honum en áður.
Ég rak í rogastans við lestur þessarar greinar hans. Hann fer mörgum orðum um kynvillinga, en þar á hann sér fáa líka (ásamt Gunnari).
Orðrétt tekið úr greininni:
“Enginn efi er í mínum huga við hvað postulinn á þegar ég ber saman grískuna og íslenska þýðingu fyrri alda um efnið. Það er því mjög illt þegar nútímaþýðing verður klæðskerasaumuð fyrir einn hópinn sem fram að þessu hefur verið flokkaður kynvilltur.
Að breyta Biblíunni á þennan hátt gæti eins kallað á breytingu fyrir þá nýríku eða peningagráðugu. Það er einnig meiðandi boðskapur fyrir þá í þessu umrædda versi.
En er það ekki deginum ljósara að það er auðveldara fyrir úlfalda að ganga í gegnum nálarauga en ríkan mann inn í himnaríki? Af hverju hvetjum við fólk til ríkidæmis þegar þeir ríku enda í helvíti? (feitletrun mín) Má vera að þetta teljist of særandi fyrir ríka Íslendinga. Eigum við þá bara ekki að breyta boðskapnum eða Biblíunni og mýkja þýðingarnar fyrir komandi kynslóðir?”
Það var við feitletruðu setninguna sem ég hrökk við og hugsaði: Hvernig er hægt að túlka þennan ritningastað svona bókstaflega? Skyldi þetta nokkuð snúa að þeim sem dýrka auðinn sinn (mammón) framyfir Guð.
Ef þetta hins vegar er túlkað svona, þá vaknar í beinu framhaldi spurningin: Hvenær ferðu þá yfir línuna og verður það ríkur að þú dettir yfir landamærin milli Himnaríkis og helvítis. Er það við eina milljón sléttar eða eina og hálfa milljón eða ofar. Hverslags pæling er þetta?
Hvað með orð Jesú, t.d. í Jóh. 3:16 þegar hann segir: “til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf” Eru þeir ríku (vantar skilgreiningu, hversu ríkir) þá ekki undir þessari náð eins og allir hinir. Hvað með ómálga barn sem fæðist inn í ríka fjölskyldu, er það þá utan náðar? Hvar skilur milli feigs og ófeigs?
Má þá kannski líka fullyrða að bæði Job sem var vellauðugur maður eða Salómon konungur sem var einhver ríkasti maður sem þessi jörð hefur alið, gisti nú helvíti?
Er ekki syndin eina vegabréfið til helvítis? Ef það er synd að eiga peninga ættu menn kannski að snúa sér að þeim ríku í stað samkynhneigðra þar sem það er miklu fjölmennari hópur í samfélaginu.
Þetta er að mínu mati miðaldaboðskapur sem ekki ætti að sjást hjá upplýstum nútíma manni.
"Guð vertu mér syndugum líknsamur", sagði tollheimtumaðurinn.
3 ummæli:
GLING GLÓ glumdi í naglanum núna!!!!!! Þessi skrif voru mér líka mikið undrunarefni - hef verið að velta því fyrir mér hvort ég ætti kannski að drífa mig í að safna mér í gjaldþrot svo ég missi ekki af himninum :-þ
En ég sagði það áður og segi það enn - þú ert snilli!
Rétt upp hönd sem er sammála!
*réttupphendi*
Ég ætla að rétta upp tvær hendur!!!!!
Skrifa ummæli