Ég hef haldið því fram að hækkandi fasteignaverð sé ekki bara á kostnað hækkaðra lána á íbúðamarkaði heldur á R-listinn þar einnig nokkra sök.
Þeir lögðu grunninn að þessu strax og þeir komust til valda í borginni fyrir alltof mörgum árum síðan. Þá var ákveðið að það væri of dýrt fyrir borgina að gera ný hverfi því það þyrfti nýja skóla og alla þjónustu sem væri allt of dýrt (tilvitnun í Ingibjörgu Sólrúnu í sjónvarpinu).
Framsýnir sveitarstjórnarmenn í nágrannabyggðalögunum stukku þá af stað t.d. í Kópavogi og mokuðu út lóðum í svangan byggingamarkaðinn.
Ávöxturinn af þeirri framsýni er mjög áþreifanlegur í dag. Gríðarlega öflugt sveitarfélag með alla þjónustu sem krafist er í dag, og miklu fleiri sem borga útsvarið. Ávöxturinn af þröngsýni R-listans er jafn áþreifanlegur. Algjört lóðarhallæri sem kemur niður á fasteignaverði og skapar fólksflótta úr borginni til annarra sveitarfélaga.
Þó vitanlega megi benda á góða hluti framkvæmda í tíð R-listans, þá er þetta svo stór skuggablettur að hann skyggir á nánast allt annað.
Það sætir furðu að svona þröngsýni skuli fá brautargengi í nútíma. Enn furðulegra er að Ingibjörg (höfundur lóðarhallærisins) skuli fá þennan byr í seglin sem raun bar vitni í síðustu formannskosningum Samfylkingarinnar. Það er greinilega nóg að vera sterkur leiðtogi. Verkin þurfa ekki að tala. Ótrúlegt hvað margir láta teyma sig á asnaeyrunum og lötra eins og sauðir á eftir þeim sem hefur hæst.
Ég las í Mogganum í morgun að Sjálfstæðismenn eru með áætlanir á prjónunum um að byggja eyjarnar hér í kringum borgina. Loksins! Þetta er nákvæmlega það sem ég hef haldið fram í mörg ár. Afhverju á allt þetta byggingaland að vera varpstöðvar máva og æðarfugla þegar gott byggingarland er af skornum skammti. Fyrir utan hvað þetta breytti borginni mikið og gerði hana fallegri.
Svo nú veistu hvar x-ið þitt þarf að lenda í næstu kosningum ef þú vilt geta byggt þér hús í Reykjavík í náinni framtíð, án þess að borga 17 milljónir fyrir lóðina.
X-D = Frelsi fyrir Reykjavík.
8 ummæli:
Vúhú! Gaman að lesa nýtt, en mikið er ég sammála, það væri rosalega gaman að geta byggt einhvern tímann og þurfa ekki að borga 50 -60 millur fyrir eitt hús. Alveg hreint út sagt fáránlegt!!!
Jæja mágur sæll!
Nú er ég innilega sammála þér ...það væri nú ekki amalegt að eiga sér bústað á fagurri eyju útí hafi...eitthvað sem ég gæti vel hugsað mér. Að alast upp sem eyjapeyji eða-pæja ÁN ÞESS að þurfa að sigla með gubbudalli uppá "meginlandið" heldur geta einfaldlega keyrt ja eða enn betra: nefninlega HJÓLAÐ!!! Ekki amaleg tilhugsun það.
Áfram X-D
Kveðja,
Litlan
Ætti ég þá að hætta að vinna fyrir B-listann, eða hvað?
Ef samviskan er eitthvað að naga þig Teddi minn. Þá er gott að vita að enn er vitjunartími. Iðrastu bara og þér mun verða fyrirgefið
:-)
Erling vinur minn, ég hef nú heyrt af virtum kennurum andlegra fræða að ekki sé allt fyrirgefið...skyldi þetta vera eitt af því sem hægt er að fá fyrirgefningu á, eða hvað?
Mér skilst að fræðimenn í dag séu breyskir, eins og í den.
Hef bullandi trú á að þú getir þvegið þíg hreinan af þessu, vitanlega þó með því skilyrði að ganga frá villu þíns vegar ;-I
já það er m.a þá líklega R-listanum og Ingibjörgu að "kenna" að fasteigna verð hefur hækkað á Akureyri um tugi % á undangengnum árum..alveg er það merkileg hvernig þið sjálfstæðisfólkið eruð að pissa á ykkur yfir henni Ingibjörgu minni og ég er sko einginn sauður skal ég segja þér!! og X-D fólkið ætti ekki að vera kasta klettum ur glerhúsunum sínum..og hana nú
Kærar kveðjur
Sigrún Eva
Ágætur punktur hjá þér Sigrún og styður fyrst og fremst það sem hér er haldið fram. Það stendur skýrt í pistlinum að ég tel R-listann einungis eiga hluta af hækkununum. Sú staðreynd, eins og þú bendir á, að fasteignaverð á Akureyri hefur hækkað til mikilla muna minna en hér, skrifa ég á R-listann og lóðarstefnu hans. Annars væru hækkanir svipaðar.
Í lokin þér til uppýsinga, þá er ég ekki sjálfstæðismaður, aðeins sammála þeim í þessu tilviki.
Bkv E.
Skrifa ummæli