föstudagur, júlí 29, 2005

Alræmd fríhelgi.

Guð forði þjóðinni frá manninum með ljáinn sem eins og hinir virðist hafa gaman af að ferðast um þjóðvegina þessa stærstu ferðahelgi ársins – og hitta fólk.
Hangi hann heima hjá sér.
Flýtið ykkur hægt á vegunum vinir, hann virðist frekar eiga erindi við þá sem eru að fýta sér um of.

Góða helgi

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Síminn seldur Bakkabræðrum.

Og ég stein gleymdi að bjóða. Veit þó ekki alveg hvort mér hefði tekist að nurla saman fyrir honum. Hann var víst frekar dýr. Maður er jú í skóla og svoleiðis.
En það hefði nú verið ágætt að þurfa ekki að borga símreikninginn sinn, heldur eiga bara apparatið.
Svona getur maður misst af góðum tækifærum. Hef bara ekki séð svona gott fyrirtæki á markaði síðan Thermo var og hét.

sunnudagur, júlí 24, 2005

Fögur er hlíðin....

Fljótshlíðin sýndi okkur sínar bestu hliðar. Við Erla, Eygló og Hrund vorum á Fitinni í dag í 23 stiga hita og glampandi sól meðan regnið vætti höfuðborgina. Það morgnaði samt með þoku og votri morgundögg á grasi sem hélst fram undir hádegi. En þá eins og hendi væri veifað braust sú gula fram og yljaði.

Við vorum náttúrulega að vígja nýja gamlingjann okkar tjaldvagninn.
Hann reyndist vera hinn mesti kostagripur.
Nokkrir heimsóttu okkur jafnhissa og við á unglegu útliti gamlingjans.
Það þurfti átak til að taka okkur upp og halda til höfuðborgarinnar síðdegis. Hefðum verið mjög til í að lengja dvölina og njóta góðviðrisins, slíkur lúxus er þó ekki alltaf í boði og þannig var það í dag. Skyldan kallar og eins þurfti Eygló okkar sem var með okkur að ná flugi norður.
Við komum við á Laugarvatni á leiðinni í bæinn til að skoða sumarbústað sem ég ætla aðeins að taka til smiðshendinni við.

Þessi útilega var farin í beinu framhaldi af afmælisveislu Daníu Rutar sem foreldrar hennar héldu uppá í gær af miklum myndarbrag, þó afmælisdagurinn sé raunverulega í dag. Þrjú ár eru síðan hún kom í heiminn, lasin litla skinnið. Hún hefur reynt meira á sinni stuttu ævi en margur fullorðinn og sýnt ótrúlegan dugnað svo aðdáunarvert er.
Til hamingju með daginn litla hetjugullið hans afa.

Ánægjuleg helgi að klárast.

föstudagur, júlí 22, 2005

Það má eyðileggja allt.

Líka frábæra silunginn í fjallavötnunum okkar. Veiðimenn eru gjarnir á að gera að fiski á árbakkanum og .... skilja slógið eftir. Mávurinn eða minkurinn étur það hvort sem er. Og það er rétt. Oftast er það mávurinn sem virðist hafa ótrúlegt skilningarvit þegar slóg er annarsvegar, alltaf mættur eins og skrattinn úr sauðarleggnum um leið og gert er að, þó hann hafi ekki verið sýnilegur fram að því.

Mörg vötn eru orðin sýkt af bandormi, hvítmaðk og tálknlús. Flest rekjanlegt til óaðgæslu veiðimanna á árbakkanum. Bandormurinn er verstur. Hann lifir í innyflum fiskanna (sýkir kjötið líka) sem veiðimennirnir eru að mata mávinn á. Mávurinn, með heitt blóð, verður hýsill og ormurinn fjölgar sér mjög. Síðan mætir sýktur mávurinn hjá næsta veiðimanni sem slægir fisk á árbakkanum, étur sig saddann og dreyfir svo dritinu yfir vatnið þar sem silungurinn heldur sig.
Hringrás sem viðheldur sýkingu.
Eina leiðin til að uppræta þetta er að veiðimenn steinhætti að skilja slógið eftir á vatnsbakkanum.

Ég hef fram að þessu talið nóg að grafa þetta og notað þá aðferð hingað til. Það hefur svo komið í ljós að það dugir ekki, þessi kvikindi grafa þetta upp og éta.

Slógið í poka og vesgú, heim með það.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

B-I-N-G-Ó.........!

Keypti Combi-camp í morgun...! Gullmoli auðvitað en gamall reynslubolti. Fékk hann fyrir 150 þúsund.
Ánægður með góð kaup ætlum við að skjótast um helgina í stuttan túr og prófa gamlingjann.

Auðvitað samt ekki fyrr en eftir afmælið hennar Daníu Rutar sem verður 3ja ára um helgina. Það var ekkert svo leiðinlegt í síðustu viku þegar hún tróð sér langa leið í gegnum mannþröng og holaði sér ofan í fang afa síns þar sem hún síðan sat, til þess að gera örugg með sig.

Fluga í höfuðið.

Það viðurkennist hér með að fluguveiði hefur ekki verið mín heillavænlegasta kúnst hingað til, allavega í aflatölum. Hnýtti þó yfir 100 flugur í vetur í lestrarpásum. Þetta er þó að koma smátt og smátt.
Mér var boðið í fluguveiði í Hlíðarvatn í Selvogi í vikunni.
Rokið var eins og mest verður í Hvalfirði, vatnið skóf, svo ekki var auðvelt að koma flugu út. Mér tókst þó að krækja í eina bleikju og missa aðrar tvær - á flugur sem ég hnýtti sjálfur.
Það skemmtilegasta við þennan túr var samt þegar ég var að hætta. Þá var rokið mikið og stóð af landi. Ég hafði sett geitung á línuna sem ég hnýtti í vetur og lét nú línuna fjúka út á vatnið og blakta eins og fána. Flugan hoppaði og skoppaði í vatnsborðinu og lét illa. Þetta náði heldur betur athygli vatnsbúanna. Þeir komu eins og eldibrandar upp úr öldunum og stukku á kvikindið fram og aftur, stórir og smáir. Enginn beit þó á fluguna og veit ég ekki hvort þeir voru að leika sér að flugunni eða bara að stríða mér. Hvort heldur var þá hafði ég mjög gaman af þessari uppákomu hjá þessum höfðingjum og fékk þá flugu í höfuðið að gaman væri að snúa sér meira að fluguveiði en ég hef gert hingað til.
Flott sýning sem ég átti erfitt með að slíta mig frá.

Ég hef ekki enn fundið tjaldvagn fyrir okkur. Nú er svo komið að ég er farinn að kíkja á Combi-camp líka svo ef þú veist um einhvern slíkan máttu gjarnan láta mig vita.
þakka hér með kærlega þeim sem hafa hringt með ábendingar.

Eigið góðan dag.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Kom á óvart.

Ekki reiknaði ég með að gamlir tjaldvagnar væru svona vandfundnir. Ég er búinn að leita og hlaupa til það litla sem hefur verið auglýst af Camplet vögnum en ekkert gengið. Það virðist sem fleiri séu sammála um að þessi tegund sé örðum fremri, því ég gæti verið búinn að kaupa heila kippu af öðrum gerðum.
Gamli sveitavargurinn gefst samt ekki upp. Hann ætlar að finna vagn. Allar ábendingar eru vel þegnar.
Njótið góða veðursins.

laugardagur, júlí 16, 2005

Tók ekki langan tíma

að selja fellihýsið okkar. Ein auglýsing og það var farið, á uppsettu verði n.b.
Svo nú erum við húsnæðislaus ef þannig má að orði komast.
Við nutum góðs af að hafa farið vel með það í gegnum árin. Hjónin sem keyptu keyrðu burt, glöð og ánægð með viðskiptin. Við horfðum á eftir þeim ekki alveg laus við söknuð. Þær eru orðnar margar góðar minningarnar sem tengjast þessu öðru heimili okkar. Notkunin lætur nærri að vera um 180 – 200 gistinætur á sex árum, nokkuð gott.
Ferðalög eru sameiginlegt áhugamál okkar hjónanna, við erum hálfgerðir farfuglar, svo okkur finnst við hálf vængbrotin nú að komast ekki ef viðrar.
Við höfum því ákveðið að leita okkur að gömlum tjaldvagni, það þarf að vera Camplet vagn árgerð í kringum 1990 og ástand frekar gott.
Ef þú veist um slíkan falan máttu gjarnan láta okkur vita. Ég er til í að borga 100 – 150 þúsundkalla fyrir góðan vagn.

Eitt vandamál spratt upp við að selja fellihýsið sem við reiknuðum ekki með. Við erum heima núna að leita að plássi fyrir dótið sem var í því, en það fyllir holið hjá okkur núna. Það má segja að hver fermetri sé vel nýttur hér, svo það er hálfgert púsluspil að koma þessu fyrir. Erla er nú samt glúrin við þetta eins og flest annað sem hún tekur sér fyrir hendur, svo ég reikna með að hér verði allt orðið pússað og fínt áður en sólin sest í kvöld.

Hafið það gott í dag og njótið íslenska sumarsins.

föstudagur, júlí 08, 2005

Morðingjar

af verstu sort. Drepa saklaust fólk með köldu blóði. Halda í heimsku sinni að þeir séu að vinna einhverjum málstað gagn.
Ræflar.

sunnudagur, júlí 03, 2005

Hamingjan er afstæð.

Mesta hamingjan er að fá að lifa lífinu og líta ný tækifæri hvert sinn sem sem sólin rennur upp. Fyrir mér er hamingjan að fá að vera með mismunandi viðhengjum.
Hamingjan er tilfinning og tilfinningar hafa þá eiginleika að koma og fara eftir hentugleikum. Hún er ekki eitthvað sem hægt er að panta. Hún bara kemur, eða fer.

Oft þegar talað er um hamingjuna virðist tilhneiging til að ætla að peningar færi manni hamingjuna. Í bókinni sem ég vitnaði í í síðasta pistli kom fram athyglisverður punktur. Í fangabúðunum áttu menn enga peninga enda engin þörf fyrir þá. Þar snerist tilveran um að fá að borða. Ef menn voru svo heppnir að ausan í súpunni fór niður á botn í pottinum og færði mönnum gromsið með, en ekki bara gutlið, framkallaði það mikla sælutilfinningu og hamingju.
Ég verð að segja að ég á erfitt með að setja mig í þessi spor og skilja afhverju það skilaði hamingjutilfinningu að fá súpugroms. Það er auðvitað vegna þess að ég hef það svo gott og hef aldrei verið í þessum harðneskjulegu aðstæðum.
Þetta hlýtur að segja manni að maðurinn er oft lítið annað en afsprengi aðstæðna sinna og umhverfis.
Það sem færir mér hamingju er þessvegna ekki endilega það sama og færir náunga mínum sína hamingju. Það fer eftir umhverfinu sem hann hrærist í. Hafa ekki allir í kringum sig fólk sem hefur allt til alls en óhamingjan skín af því.

Það hlýtur því að vera einhver besti staður sem hægt er að komast á að vera hamingjusamur.
Mín kenning er sú að allir geti komist á þann stað með smá Pollíönnuleik. Það er alltaf hægt að koma auga á hversu hlutirnir gætu verið verri og eins hvað tilgangurinn helgar meðalið í öllu. Það er alltaf einhver tilgangur í næsta skrefi, það bíður alltaf eitthvað við hverja sólarupprás.

Ég er allavega mjög hamingjusamur með minn stað í dag og geri mér góða grein fyrir að það er gjöf Guðs til mín.

Njótið helgarinnar

laugardagur, júlí 02, 2005

Það er ekki oft....

sem ég les sömu bókina tvisvar sinnum án þess að gera hlé á. Það gerði ég þó í ferðalaginu okkar í Danmörku. Ég las hana aftur til að reyna að dýpka skilning minn á því sem þar er haldið fram. Eftir tvær yfirferðir mæli ég hiklaust með að allir lesi þessa bók.
Bókin heitir “Leitin að tilgangi lífsins” eftir Viktor E. Frankl. Viktor er geðlæknir að mennt og hefur skrifað fjölda bóka. Af þeim öllum er þessi bók sú langmest lesna eftir hann.
Bókin segir frá hörmulegri reynslu hans í Auswich fangabúðum nasista á stríðsárunum. Þessi reynsla hans þegar hann ásamt samföngum sínum fer út á ystu mörk mannlegrar þolraunar, getur af sér dýpri og trúverðugri hugsanir um tilveru mannsins og tilgang en ég hef áður kynnst.
Bókin er alveg laus við tepru og tildur. Eftir að hafa leitt lesandann um lendur Auswich og gefið honum nasa þef af einum mesta óhugnaði sögunnar, setur hann fram kenningar sínar í seinni hluta bókarinnar. Það gerir hann á hispurslausan og trúverðugan hátt sem einungis maður sem veit af eigin reynslu, getur gert.
Kenningar hans nefnast “logotherapy”. Án þess að reyna að útskýra innihaldið hér get ég þó sagt að það snýst um tilgang og tækifæri framtíðar en lætur vera að gramsa í fortíðinni eins og mörgum hættir til.
Bókin er skrifuð af snillingi, undirstrikuð með hryllingi Auswich sem gefur orðum hennar meira vægi en ella.
Mæli hiklaust með að þú lesir hana.

föstudagur, júlí 01, 2005

"HRUND ERLINGSDÓTTIR,

nemandi í Fellaskóla hlýtur viðurkenningu menntaráðs Reykjavíkur fyrir að vera jákvæð fyrirmynd og sýna frumkvæði og leiðtogahæfileika í skapandi starfi".

Þessi viðurkenning ásamt bókargjöf beið frökenarinnar þegar við komum heim frá Danmörku.
Skólinn hennar tók við þessu fyrir hennar hönd þar sem hún var ekki í landinu. Hún er vel að þessu komin stelpan, hefur staðið sig afar vel og uppsker þess vegna eftir því.
Gaman að nefna það líka að hún sótti um vinnu í dag þar sem Nóatún er að loka búðinni sem hún var að vinna í. Svar barst áðan, hún fékk vinnuna, það skilar sér að standa sig vel.

Til hamingju með þetta elsku Hrundin mín.