sunnudagur, júlí 03, 2005

Hamingjan er afstæð.

Mesta hamingjan er að fá að lifa lífinu og líta ný tækifæri hvert sinn sem sem sólin rennur upp. Fyrir mér er hamingjan að fá að vera með mismunandi viðhengjum.
Hamingjan er tilfinning og tilfinningar hafa þá eiginleika að koma og fara eftir hentugleikum. Hún er ekki eitthvað sem hægt er að panta. Hún bara kemur, eða fer.

Oft þegar talað er um hamingjuna virðist tilhneiging til að ætla að peningar færi manni hamingjuna. Í bókinni sem ég vitnaði í í síðasta pistli kom fram athyglisverður punktur. Í fangabúðunum áttu menn enga peninga enda engin þörf fyrir þá. Þar snerist tilveran um að fá að borða. Ef menn voru svo heppnir að ausan í súpunni fór niður á botn í pottinum og færði mönnum gromsið með, en ekki bara gutlið, framkallaði það mikla sælutilfinningu og hamingju.
Ég verð að segja að ég á erfitt með að setja mig í þessi spor og skilja afhverju það skilaði hamingjutilfinningu að fá súpugroms. Það er auðvitað vegna þess að ég hef það svo gott og hef aldrei verið í þessum harðneskjulegu aðstæðum.
Þetta hlýtur að segja manni að maðurinn er oft lítið annað en afsprengi aðstæðna sinna og umhverfis.
Það sem færir mér hamingju er þessvegna ekki endilega það sama og færir náunga mínum sína hamingju. Það fer eftir umhverfinu sem hann hrærist í. Hafa ekki allir í kringum sig fólk sem hefur allt til alls en óhamingjan skín af því.

Það hlýtur því að vera einhver besti staður sem hægt er að komast á að vera hamingjusamur.
Mín kenning er sú að allir geti komist á þann stað með smá Pollíönnuleik. Það er alltaf hægt að koma auga á hversu hlutirnir gætu verið verri og eins hvað tilgangurinn helgar meðalið í öllu. Það er alltaf einhver tilgangur í næsta skrefi, það bíður alltaf eitthvað við hverja sólarupprás.

Ég er allavega mjög hamingjusamur með minn stað í dag og geri mér góða grein fyrir að það er gjöf Guðs til mín.

Njótið helgarinnar

2 ummæli:

Íris sagði...

Góður pistill. Það er svo rétt að peningar veita manni ekki hamingju, þeir geta veitt manni smá stundargleði en hún er horfin innan skamms.

Heidar sagði...

Mikið rétt, hvet alla til að losa sig við peninga, þeir eru bara til leiðinda!!!!

Reikningsnúmerið mitt er 0922-26-897477145

:)