laugardagur, desember 31, 2005
Annáll fjölskyldunnar
Árið sem er að líða ber með sér margt góðra hluta í lífi okkar fjölskyldunnar.
Það bættist við ættina með fæðingu yngsta barnabarnsins Þóreyjar Erlu Davíðsdóttur. Þann 17. október. Hin barnabörnin vaxa og eflast með degi hverjum og er gaman fyrir afa og ömmu að fylgjast með og taka þátt.
Arna og Davíð fluttust suður á árinu og búa nú nálægt okkur hér í Breiðholtinu. Það er gott, sérstaklega fyrir Daníu Rut sem hefur fengið góða aðhlynningu á leikskólanum sínum ásamt aðstoð þroskaþjálfara. Henni fer vel fram. Davíð hóf vinnu á heimili fyrir einhverfa drengi og líkar vel. Þau una sér vel í Seljahverfinu enda rólegt og fjölskylduvænt hverfi.
Eygló flutti líka suður og býr í Bláskógum í Seljahverfi. Hún hafði þó áður keypt sér íbúð á Akureyri. Það var góð fjárfesting sem hefur hækkað ört undanfarið. Hún vinnur í Hagkaupum í Smáralind. Hún hefur verið hjá okkur um jólin enda erum við orðin fá í heimili og veitir ekki af að bæta það aðeins upp.
Íris og Karlott ásamt dætrum sínum búa í Hafnarfirðinum og líkar vel. Íris hóf nám í lögfræði á haustmisseri og gekk henni það vel. Karlott skipti um vinnu á árinu og hóf vinnu í Landsbankanum. Þau eyða áramótunum í sumarbústað austur í Grafningi.
Hrund hóf nám í Kvennaskólanum. Líkaði ekkert of vel til að byrja með en fljótlega varð Kvennó bestur. Hún hefur verið að vinna með skólanum og sýnt af sér dugnað þar. Hún hafði plön um að gerast skiptinemi í Frakklandi, en hefur horfið frá þeim áætlunum, hún tímir ekki að missa af bekknum sínum.
Erla vann á Verkvangi stærsta hluta ársins en hætti þar í lok nóvember vegna ört minnkandi verkefna hjá fyrirtækinu. Hún hefur tekið það rólega í desember, en er með ýmsar pælingar varðandi framhaldið. Hún verður ekki í vandræðum að finna sér eitthvað við sitt hæfi, ef að líkum lætur.
Ég sjálfur hef verið á kafi í náminu þetta árið og hefur gengið nokkuð vel, þó alltaf megi gera betur. Vann við smíðar í sumar og gat því stýrt umfangi þess sem ég tók að mér. Vildi hafa það þannig, þar sem ég vildi geta ferðast og notið sumarsins með fjölskyldunni.
Sumarið er tíminn, hef ég oft haldið fram. Engin undantekning var á því þetta árið. Upp úr stendur ferðin okkar til Danmerkur. Þar vorum við í þrjár vikur með vinum okkar Heiðari og Sigrúnu. Tvær vikur vorum við í sumarhúsi í Arrild á Jótlandi og eina viku sem skiptist á milli Stövring í góðu yfirlæti hjá Óla og Annette og Kaupmannahafnar. Köben skipar alltaf sérstakan sess í okkar huga, fátt er sem jafnast á við að sitja á ráðhústorginu og skoða mannlífið þar á góðum degi. Eins þykir okkur danska smörrebrödet á Kronberg eiga fáa sína líka.
Ég veiddi í fyrsta skipti á erlendri grundu í þessari ferð, Geddur og Abborra ásamt einhverjum fleiri tegundum sem ég kann ekki einu sinni skil á. Önnur Geddan var stór og gaman að veiða hana, var reyndar heppinn að sleppa með tíu fingur frá henni þar sem hún reyndi að bíta einn puttann af mér, það kostaði hana lífið.
Við ferðuðumst vítt um Jótland og vorum mjög heilluð af mörgum stöðum, enda var veðrið eins og á sólarströndu nánast allan tímann.
Veiðin hér heima var líka góð. Sumarið hófst með veiðiferð í Þórisvatn með Heiðari og Hlyn. Þar veiddist vel að vanda og eigum við enn talsvert af fiski þaðan í kistunni. Gott að fá ársbirgðirnar þar, því fiskurinn þar er einn sá besti sem fyrirfinnst.
Það má segja að þetta ár hafi ég fyrst lært að veiða á flugu. Ég hnýtti slatta síðasta vetur sem ég veiddi á í sumar. Haustið stendur upp úr. Ég fór nokkrar ferðir í sjóbirting í haust og veiddi yfirleitt vel, ásamt því að setja í einn og einn lax. Mest veiddi ég á fluguna mína "Erlu" sem ég hannaði og batt síðasta vetur. Það kom skemmtilega á óvart hvað hún er veiðin.
Við dvöldum oft á landinu okkar á Fitinni í sumar. Meira en nokkru sinni áður og kviknaði í okkur löngun, í fyrsta skipti, til að fara að huga að því að koma okkur upp kofa þar, til að dvelja í. Gengum svo langt að fara út í verðkannanir. Einnig fengum við leyfi byggingaryfirvalda til að færa byggingarreit og snúa mænisás hússins, ef við skildum byggja.
Við fórum einnig á fjöll í sumar. Fljótshlíðarhringurinn stendur þar upp úr. Við fórum ásamt Hlyn og Gerði og Hansa og Auju á einum degi um þessar fallegu lendur þar sem Skaparinn virðist sérstaklega hafa vandað til verka.
Ég held ég geti sagt að ég veit ekki um fallegri leið á Íslandi, þó við höfum víða farið.
Haustið kom með sína fallegu liti og tilkynnti komu vetrar. Veturinn hefur verið mildur og góður. Þó ber skugga á þegar dauðinn knýr dyra, en við kvöddum Birgi Kornelíusson frænda Erlu um daginn. Einnig lést annar frændi hennar í bílslysi við Akureyri, Sigurður Arnar Róbertsson. Blessuð sé minning þeirra.
En svona er lífið, það gefur og tekur.
Árið hefur í heildina verið gott og gjöfult. Ég hef þær væntingar til ársins sem er að ganga í garð að það verði jafn gott, eða betra.
Bið Guð um að gefa ykkur öllum vinum mínum gifturíkt og farsælt ár
með kærri þökk fyrir það sem er að líða.
Gangið á Guðs vegum.....
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
7 ummæli:
Þakka samfylgdina á árinu kæri vinur. Það er gott að eiga vin eins og þig! Hlakka til góðra samverustunda fjölskyldna okkar á nýju ári. K.kv. Teddi.
Gleðilegt ár kæri bróðir og fjölskylda, ég sit hérna alein vöknuð á heimilinu (morgunhanagenið)og skoða blogg ættingja og vina og var líka að skoða myndirnar frá fjölskyldugrillinu hjá Hildi í sumar. (ljosmyndir.tk)
Mikið var nú skemmtilegt hjá okkur.
Endurtökum þetta næstu Verslunarmannahelgi.
Ég virðist vera ansi treg.......
Allavega koma kommentin mín ekki nema annað slagið fram,..........
-prófa núna
Hey skemmtilegur annáll hjá þér pabbi. En takk fyrir árið sem er að líða og öll hin sem eru löngu liðin á brott. Hlakka til að eiga fleiri skemmtilegar samverustundir á nýja árinu. Eigðu góðan dag, Arnan þín:)
Kæra systir!
Þú þarft að fara aftur á síðuna og ýta á "refresh" takkann eftir að þú hefur sent komment til að sjá það á síðunni.
Ekki spurning að endurtaka "sumargleðina"
kv E
Kæru vinir, takk fyrir allt gamalt og GOTT. Megi Guð blessa ykkur ríkulega á nýbyrjuðu ári og þar á meðal að kveikja velgengiseld í atvinnumálum Erlu systur minnar. Gangi þér líka vel með skólann Erling minn. Ennfremur innilega til hamingju með aukinn fjölskylduríkdóm. Ekki samt gleyma að ég á fótinn á einu barnabarninu. Sjáumst vonandi oftar 2006 en var á mínus einum.
Gleðilegt ár til þín og fjölskyldunnar. Megi nýtt ár færa þér og þínum ekkert nema gott, þó að líkt og Teddi & fj., þú og þín fína frú þurfið að þjást á Kanarí. En það verður aðeins um stutta stund, þið munuð komast í gegnum þau leiðindi með hjálp Hlyns og Gerðar. Herðið því upp hugann og lítið björtum augum fram á veginn. :)
Skrifa ummæli