Af gefnu tilefni tek ég mér ögn skáldaleyfi til að fylla í nokkrar eyður.
Það glamraði í eldhúsáhöldum og ómurinn af því barst upp á efri hæðina. Ég lá með lokuð augun og hlustaði. Hitinn í herberginu var nær frostmarki en það var hlýtt undir sænginni, hún var þykk og góð. Hugurinn var þegar orðinn upptekinn af tilhugsuninni um hvernig dagurinn yrði. Jólatréð niðri í stofu var skreytt með bómull ofan á greinunum til að líkja eftir snjó, ásamt allskyns skrauti, kúlum, glerfuglum og englahári sem gerði fallega geisla í kringum ljósin á greinunum.
Loksins var þessi dagur runninn upp. Nú máttum við fara að raða pökkunum kringum tréð. Mér hafði gengið illa að sofna kvöldið áður og var nú vaknaður eldsnemma. Ég spratt upp úr rúminu og vakti Hlyn bróðir minn og tilkynnti honum hátíðlega að það væri kominn aðfangadagur.
Desember hafði verið lengi að líða og vaxandi tilhlökkunin varð gríðarlegri eftir því sem nær dró. Við höfðum farið út í kaupfélag með einhvern vasapening til að kaupa gjafir handa pabba og mömmu og hvor öðrum. Allt var leyndardómsfullt og spennandi. Hlynur hafði fundið á neðri hæðinni í kaupfélaginu þessa forláta beljuklóru með rauðu skafti handa pabba, en ég fann staf handa mömmu því mamma var á þessum árum alltaf hölt því hún var með ónýta mjöðm (fór seinna í liðskipti). Það var því praktíkin sem réði gjafavali í þá daga.
Það hafði verið erfitt að velja gjöf handa Hlyn eða öllu heldur var það þannig að ég hafði fundið gjöf, traktor úr járni, bláan að lit út í Mosfelli á Hellu. Mér fannst traktorinn svo flottur að ég ákvað að kaupa hann um leið og ég sá hann. Þetta var flottasti traktor sem, ég hafði séð á ævinni. Ég fór í vasann og taldi peningana mína. Þeir dugðu akkúrat fyrir traktornum. Ég sá fyrir mér hvað það yrði frábærlega gaman að leika okkur saman með traktorinn, en uppgötvaði augnablikinu seinna að auðvitað yrði bara einn traktor og Hlynur myndi ráða yfir honum. Ég taldi peningana aftur og aftur en útkoman var alltaf sú sama, það dugði fyrir einum traktor. Ég komst ekki framhjá þessari staðreynd svo ég stóð þarna ráðalaus og endaði eins og barna er gjarnt. Ég grét.
Næsta sem ég man var að pabbi kom og tók mig upp til að kanna hvað gengi að stráknum. Ég sagði honum vandræði mín með vota hvarma, að ég ætti bara fyrir einum traktor og hvað mig langaði sjálfan í svona traktor. Eftir eitthvert samningaþóf var farið að afgreiðsluborðinu og pabbi borgaði traktorinn.... með sínum peningum og sagði að ég mætti eiga hann. Ég man enn hvað ég var þakklátur. Þá var til fyrir öðrum traktor handa Hlyn, reyndar hallast ég frekar að því að ég hafi keypt vörubíl handa honum, en ekki traktor.
Við rukum niður stigann. Mamma var löngu vöknuð og var að stússa í eldhúsinu. Útvarpið var stillt hátt, verið var að flytja jólakveðjurnar. “Öllum ættingjum okkar og vinum, sendum við hugheilar jóla og nýárskveðjur .....Jón og Gunna í Melasveit”, eitthvað þessu líkt, ómaði um húsið. Það var mikið um að vera í eldhúsinu hjá mömmu. Hrærivélin á fullu og pottar á eldavélinni spúðu gufu. Eftirvæntingin var einhvernveginn í algjöru hámarki.
Mamma var búin að raða fullt af pökkum kringum jólatréð og nú bauð hún okkur að sækja pakkana okkar og setja þá kringum tréð. Ekki þurfti að hvetja okkur til þess. Við þustum af stað og settum pakkana hátíðlega, bakvið tréð, til að þeir yrðu ekki fyrstir þegar kæmi að því að deila þeim út.
Dagurinn leið hægt og rólega, alltof rólega. Við vorum alltaf að fara að trénu og skoða pakkana og horfa á ljósin. Eftir hádegi var jóladagskrá í sjónvarpinu. Það var svart/hvítt sjónvarp sem Danni bróðir hafði komið með heim einu sinni þegar sjónvarpið var að hefja göngu sína á Íslandi. Krakkarnir úr hinum húsunum komu til að fá að horfa á sjónvarpið með okkur. Það stytti stundir.
Seinni partinn var farið snemma í fjósið til að hægt yrði að hafa allt tilbúið klukkan sex. Heimilisfólkið fór í bað hvert á eftir öðru og allir voru greiddir og fínir. Sjónvarpið entist til klukkan fjögur en þá tóku við tveir lengstu árlegu klukkutímar sögunnar.
Mamma var á fullu í eldhúsinu og klukkan sniglaðist áfram. Milli fimm og sex var farið í sparifötin og spariskóna og nú bara sátum við og biðum eftir klukkunni.
Mínúturnar siluðust framhjá ein eftir aðra. Loksins var hápunktinum náð.
Hljómur jólabjallanna í útvarpinu ómaði um húsið, þeir fylltu hvern krók og kima og líka sálina sem upphófst með hljómunum.
“Gleðileg jól, gleðileg jól”, heyrðist út um allt, allir með bros á vör að faðmast og skiptast á heillaóskum. Hátíð í bæ og friður jólanna færðist yfir. Lotning fyrir Jesúbarninu, frelsaranum fyllti alla veru okkar.
Maturinn var aldrei tilhlökkunarefni hjá mér í þá daga. Hann var bara til að tefja. Þó var maturinn alltaf góður hjá mömmu þó komið hafi fyrir að ég hafi beðið um hafragraut í staðinn fyrir jólamatinn, ég veit ekki hvort það var um þessi jól eða önnur.
Eftir matinn fannst okkur mamma alltaf vera endalaust lengi að taka saman, pabbi alltaf eitthvað að tefja og allir aðrir þurftu að fara á klósettið.
Loks var farið að útbýta gjöfum. Mamma fékk krampa af hlátri þegar hún reif utan af stafnum. Þetta var karlmannsstafur úr bambus, boginn í annan endann og allt of stór fyrir hana, fyrir utan að hún taldi sig líklega ekki þurfa að ganga við staf. Pabbi virtist vera ánægður með beljuklóruna (held ég). En ég man sérstaklega hvað við Hlynur vorum ánægðir með gjafirnar okkar, allavega ég með traktorinn.
Jólin hafa breyst en mannfólkið er alveg eins. Siðirnir breytast og þróast en hátíðleikinn og friðurinn er sá sami. Og afmælisbarn jólanna breytist aldrei.
Óska ykkur öllum vinum mínum gleðilegra jóla.
4 ummæli:
Þetta var sko skemmtileg lesning! Fyndið með stafinn og traktorinn! Ég hugsa að ég hefði gert það sama og afi gerði fyrir þig ef mín skvísa væri í þessum sporum!
En takk Æðislega fyrir gærkvöldið! Þetta var alveg meiriháttar!
Æðislega gaman að lesa þetta, eins og allt sem þú segir okkur um lífið í sveitinni í gamla daga, sætast í heiminum að afi hafi borgað traktorinn og gefið þér :) fyndið líka með stafinn og líka svo krúttlegt því að þú valdir hann alveg sjálfur! Hafðu það alveg rosalega gott áfram ;) Þín dóttir Eygló
Gaman að fá að skyggnast svona inn í fortíðina og lesa góða sögu eftir góðan penna... kannski það kemur út bók frá þessum sama penna í framtíðinni? Aldrei að vita...!
Ég þakka einnig fyrir mig!
Halldór Laxness hvað.... Þú ættir að gefa út æskuminningar þínar pabbi. Sú bók myndi rokseljast. Þú segir svo skemmtilega frá. Ég mun aldrei gleyma sögunni um gæsina sem þú reyndir að drekkja. Bara brill. Sjáumst vonandi sem fyrst... Arnan þín:)
Skrifa ummæli