fimmtudagur, mars 05, 2009

Er heima í dag.

Ég átti reyndar að vera í fyrirlestri í vátryggingarétti í morgun. Verð að viðurkenna að ég nennti ekki til Reykjavíkur fyrir tvo fyrirlestra í persónutryggingum, fagi sem ég vann við í tvö ár. Það er búið að vera mikið að gera í skólanum undanfarið, endalaus verkefni. Í gær fluttum við "héraðsdómsmál" varðandi ýmsa riftanlega gerninga í bankafallinu. Tilbúin dæmi auðvitað en líkleg til að koma upp í veruleikanum. Skemmtilegt fag.

Ég er núna sestur niður við verkefni í skuldaskilarétti, efnismikið og feitt.
Hugtakið "rannsóknatengt nám" byggir á þessari aðferðafræði, endalaus raunhæf verkefni, praktík, praktík, praktík. Ég er ánægður með þetta, læri meira á einu svona verkefni en lestri margra bóka.

Það er ánægjulegt hvað daginn hefur lengt. Sveitamaðurinn í mér er farinn að hlakka til vorsins. Það kemur alltaf einhver fiðringur í mig á þessum tíma. Eina sem ég kvíði núna er að þurfa að vera inni að lesa fyrir prófin í vor. Hef oft átt svolítið bágt, hlustandi á vorhljóðin úti, fastur yfir bókunum.

Það er svo sem fátt sem bendir til komu vorsins núna, 7 stiga frost og strekkingsvindur. Húsið við ána kúrir hér á árbakkanum í norðangarranum. Áin er illvíg núna með mikinn klakaburð, samt finna álftirnar sér fæðu innan um krapann, kafa með hausinn niður á botn og virðast finna þar eitthvað sem seður.
Feginn er ég að vera ekki álft....!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hahahahaha, ég líka:) LU, Arna