Hvað er góð fjölskyldustefna í nútíma þjóðfélagi? Gylfi frændi minn spurði að þessu á statusnum sínum á Fésbók.
Ég skrifaði á móti það fyrsta sem mér datt í hug. "Nær er skinnið en skyrtan"
Þetta er ekki málsháttur eins og margir halda, heldur er þetta tilvitnun í Jobsbók þegar Satan vildi fá að ganga að Job sjálfum eftir að hafa kramið fjölskyldu hans og allt sem hann átti.
Þessi orð eru þegar að er gáð, afar gildishlaðin, og auðvelt að finna þeim stað í lífinu.
Það er bjargföst trú mín að mikil og náin samvera barna og foreldra sé besta veganesti sem hægt er að gefa þeim. Þau læra fyrst og fremst af foreldrum sínum - ef... þau fá tækifæri til þess.
Ég held líka að þeim sé afar nauðsynlegt að finna að þau eigi óskoraðan forgang að foreldrum sínum umfram aðra, bæði fólk og málefni, ekki í orði, heldur raunverulega - gangi fyrir. Að heimilið sé hreiður fjölskyldunnar, uppspretta ánægju og yndisauka.
Áður fyrr á árunum var fjölskyldulíf miklu samofnara, með húslestrum og spjalli. Í dag er sjónvarpið barnapía meðan börnin eru ung, svo verður það gjarnan eins og hver annar fjölskyldumeðlimur og oftast sá sem fær mesta athyglina. Það veit ekki á gott.
Innihaldsríkar samræður um lífið og tilveruna hefur mikið forvarnargildi. "Hvað ungur nemur gamall temur".
Það veltast margir ósjálfbjarga í brimgarði efnahagsólgunnar núna. Unga fólkið sem alið er upp við að fá hlutina upp í hendurnar strax, á hvað erfiðast með að finna sér viðspyrnu þar.
Ég hef þá trú að ef þessu unga fólki hefði verið kennt af foreldrum sínum hvernig ber að umgangast fé, væri það í öðrum sporum núna.
Fyrir nokkrum árum var ég í svipuðum pælingum hér á síðunni. Pistillinn er hér.
"Oft ratast kjöftugum rétt á munn" þá blöskraði mér sóunin og eyðslan hjá fólki. Þetta var samt hófsamt þarna árið 2004 miðað við það sem átti eftir að verða.
Ég held ég verði að vera sammála pistlinum mínum gamla.... og hvetja fólk til að setjast niður með börnunum sínum og kenna þeim að umgangast lífið með varúð þ.m.t. peninga. Það stendur engum nær en okkur, því nær er skinnið en skyrtan...!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli