sunnudagur, mars 15, 2009

Hart í bak

Við fórum í leikhús í gærkvöldi. Við erum hálfgerðar leikhúsrottur orðnar svo fólk er farið að gefa okkur miða í leikhús t.d. í afmælisgjafir o.þ.h. Það þykir mér algjör snilld. Það á að gefa fólki á okkar aldri eitthvað sem eyðist. Ekki glingur og skraut.
Hart í bak eftir Jökul Jakobsson er flott leikrit. Hvort tveggja er það vel flutt og sagan er skemmtileg ádeila á þjóðfélagið, sem vafalaust hefur ekki verið hugsun höfundarins þegar þetta leikrit var samið árið 1962, allavega ekki á sama hátt og nú er, enda engin brjálæðisleg peningahyggja búin að tröllríða þjóðinni þá þegar verkið var frumflutt fyrir fullu húsi í Iðnó. Gunnar Eyjólfsson leikari sló í gegn með frábærlega flottri túlkun á gömlum blindum fyrrverandi skipstjóra sem hafði strandað skipinu sínu (Gullfossi) óskabarni þjóðarinnar. Flott dramatík hvernig hann endaði ævina í einsemd og að lokum troðið á elliheimili.

Núna sit ég hér einn niðri, við opinn glugga og hlusta á árniðinn. Hann lætur svo vel í eyrum svona á morgnana. Sérstaklega þegar veðrið er svona stillt og fallegt eins og núna, sól í heiði, svo manni finnst jafnvel vorið vera farið að minna aðeins á sig.
Þessi dagur verður annars notaður í lærdóm. Gærdagurinn var svona kæruleysisdagur, lítið lært. Farið í bæinn í afmæli tengdamömmu og svo leikhúsið í gærkvöld. En svona dagar eru nauðsynlegir inn á milli.

Ég er farinn að fá einkunnir úr þessum endalausu verkefnum og er ekki fallinn enn.
Erlan var að koma niður svo "nú er nóg" eins og einhver sagði. Ætla að fara fram og hella upp á tvo bolla af nýmöluðu kaffi, bjóða henni í stofuna í límsófann og spjalla aðeins.
Lífið er dans á rósum....stundum á rósablöðunum sjálfum.

1 ummæli:

Eygló sagði...

Gangi þér vel í dag að læra, og mér finnst æðislegt hvað þið mamma eruð dugleg að fara í leikhús saman! Þið eruð æðibitar!
Þín Eygló