þriðjudagur, mars 30, 2010

Páskafrí

Verð samt að hengslast til að skrifa ritgerð sem ég verð að vera búinn með 15. apríl. Þau togast á um tímann minn búðin og skólinn þessa dagana. Vinnan við undirbúning búðarinnar gengur vel. Kláraði viðskiptaáætlunina í morgun og fór með hana í bankann. Vinnan við húsnæðið gengur vel svo þetta er allt á áætlun.
Ég ætla að koma mér nær gosinu á Fimmvörðuhálsi um páskana. Óróinn í beinum mínum þarf útrás. Kannski flýg ég þangað eða fæ mér göngutúr eða jafnvel bíltúr, fékk reyndar slæmar fréttir af færð á jöklinum, skoða það betur. Er ákveðinn í að taka Erluna með ;o)
Svo ætla ég að njóta þess að vera til og eiga samfélag við skemmtilegt fólk.
Lífið er gott, það er gefið okkur til að njóta þess.

miðvikudagur, mars 24, 2010

Að grípa gæsina....

Er ekki lífið fullt af tækifærum? Ég tók þau orð upp í mig eftir hrun að kreppuumhverfið fæli í sér tækifæri. Ég vonaði í leiðinni að ég þyrfti ekki að éta þau orð þversum ofan í mig aftur. Ég held, líkt og máltækið segir: "Oft ratast kjöftugum rétt á munn" að þetta hafi ekki verið ofsagt.
Það má til dæmis nefna að bankarnir eiga núna fyrirtæki á kippum sem þeir vilja svo gjarnan koma frá sér til einstaklinga sem geta og vilja reka þau. Þessi fyrirtæki eru á lágmarksverði, nánast á brunaútsölu miðað við hvað í þeim býr.
Það eru líka tækifæri núna sem voru ekki í þenslunni til að starta rekstri sjálfur. Kosturinn við það er að þá er hægt að velja sér hvaða svið menn vilja hasla sér völl á. Fyrir hrun var allt í boði og yfirleitt var offramboð á öllum hlutum. Það er yfirleitt ekki lengur.

Okkur Erlunni bauðst loksins húsnæði á frábærum stað hér við Austurveg á Selfossi til að opna rekstur. Þar verður glæsileg ísbúð þar sem fólk getur sest niður og notið þess að borða ísinn sinn í notalegu umhverfi. Svo verður minjagripaverslun og internetkaffi í sama húsnæði með opið á milli.
Við teljum eftir mikla rannsóknarvinnu að þetta muni bera sig vel. Þetta er líka tækifæri fyrir Erlu að vinna á staðnum en hún hefur keyrt til vinnu í Reykjavík síðan við fluttum austur. Erla verður rekstrarstjóri yfir þessu og mun stýra daglegum rekstri.
Ég fer svo auðvitað bara að veiða og svoleiðis..... held ég. Hugsanlega skoða ég hvort ég sinni einhverri lögfræðiþjónustu hér fyrir austan eftir nám. Hvert formið verður er ekki enn ákveðið.
En ég hlakka til að fá ykkur í ísbúðina okkar - þangað verða allir velkomnir.

mánudagur, mars 22, 2010

Jökullinn gýs

Mér er minnisstætt úr uppvextinum að afi sagði stundum frá gosinu í Eyjafjallajöki 1821. Ekki þannig að hann hafi verið fæddur þá heldur voru þetta lýsingar munnmæla sem hann hafði heyrt þegar hann sjálfur var krakki. Lýsingarnar voru af öskufalli og drunum og dynkjum.
Nú gýs hann aftur. Í mínum huga var gos í Eyjafjallajökli alltaf eitthvað mikið og stórfenglegt. Þetta gos er afar langt frá mínum hugmyndum um það. Af fréttamyndum að dæma hefur mér fundist þetta helst líkjast ágætri áramótabrennu.
Við Erlan fórum í gær að skoða þetta. Með því að fara áleiðis upp í Tindfjöll kemst maður á mjög fínan útsýnisstað. Ég verð að viðurkenna að þetta bjargaði heilmiklu. Þetta er ekki lengur gamlársbrenna.
Eldarnir voru mjög tignarlegir og teygðu sig langt í loft upp, margir mjög efnismiklir og flottir.

Það kitlar mig alltaf þegar gýs, get ekki að því gert. það á vafalítið rætur að rekja til uppvaxtaráranna minna. Þegar ég var 3ja ára 1963 byrjaði Surtseyjargosið sem blasti við út um herbergisgluggann minn. Myndin af risa gosstrók og eldingum og dynkjum er enn fersk, það gos varði í 4 ár. Svo gaus Hekla 1970. Ég sá augnablikið þegar gosstrókurinn kom upp fyrir brúnir Þríhyrnings, hljóp inn og tilkynnti að Hekla væri byrjuð að gjósa. Svo var farið á staðinn - og skoðað, ég man enn eftir dynkjunum úr gosinu, eins og járnbrúsum væri slegið saman. Síðan gaus í Vestmannaeyjum þremur árum seinna. Nóttina sem það byrjaði vorum við vakin upp kl. 6 með þeim fréttum að eyjarnar væru sprungnar og væru að sökkva í sæ. Það sem blasti við í myrkrinu var eins og blóðrautt sólarlag, risaeldur, allur himininn logaði og hugsunin um að fólkið í Eyjum væri að farast var yfirþyrmandi og til að undirstrika kraftinn í gosinu þá heyrðust miklar drunur og dynkir og það hrikti í gluggum og hurðum hjá okkur. Það fór sem betur fer vel eins og allir vita. Gosið var ótrúlega tilkomumikið og magnað.

Mývatnseldar byrjuðu svo 1975 með mörgum eldgosum á 9 ára tímabili. Við Erla komumst í mikið návígi við gosið 1980...hmm tölum ekki nánar um það. Hekla gaus líka 1980. Við brunuðum þangað um leið og fréttist af gosinu og vorum þar um nóttina í návígi við gríðarlegt gos. Aftur gaus Hekla 1990 og enn árið 2000. Öll þessi gos hef ég séð og alltaf fundið fyrir einhverri lotningu gagnvart þeim.
Það er kannski ekki furða þó eldgos hafi skipað sér stóran sess í mínum huga. Mér sýnist nú Erlan hafa smitast talsvert af mér, allavega var hún búin að vera á refresh takkanum á skjálftavaktinni fram að gosi núna og uppfærði mig reglulega.

Það var gaman að sjá þetta í gærkvöldi og upplifa að þetta er alvöru eldgos sem er þarna á ferðinni á Fimmvörðuhálsi. Hugmyndin var að ganga hálsinn í sumar, við sjáum til með það. kannski verður það bara enn meira spennandi ef hægt verður að skoða gos í návígi í leiðinni :o)
Nótið daganna.

laugardagur, mars 20, 2010

Laglína

Ég er grasekkill. Hvaðan sem það orð er nú ættað. Erlan er í sumarbústað með saumaklúbbnum sínum sem ég held að eigi orðið nærri tuttugu ára sögu, ágætis líftími það. Þær fóru af stað í gærkvöldi með viðkomu í Menam hér í bæ. Mér skildist að það væri nauðsynlegt til að hrista hópinn saman í byrjun ferðar. Þær kunna á nótnaborðið í lífinu þessar elskur.
Er þetta kannski þannig? Er vöggugjöfin okkar allra nótnaborð en engar nótur til að spila eftir? Uppvaxtarárin æfingatími undir leiðsögn og svo spilar hver eftir sínu eyra. Ætli laglínurnar okkar séu svona misjafnar þessvegna. Hver er sinnar gæfu smiður gæti þá hljómað - hver er sinna nótna smiður.

Sónatan mín er allavega ljúf þessa dagana þó ég geti auðvitað kveinað yfir lærdómnum, annað væri ekki búmannlegt. Enginn er búmaður nema hann barmi sér.....!
Það getur samt verið erfitt að vera kvartandi búmaður í þessu umhverfi sem mér hefur verið plantað í. Þessi reitur hér er sá besti á jarðarkúlunni fyrir okkur. Hér við bæjardyrnar verð ég vitni að fegurstu tónum tilverunnar á hverju vori þar sem náttúran sjálf spilar tónverkið. Ég horfi hér á sköpunarverkið í beinni - þessa ótrúlegu smíð sem virkar frá smæstu mögulegu einingum upp í tröllslegar víddir. Allt vaknar til lífsins og endurnýjast. Maður stendur hjá, opinmynntur og langeygur, hvaða ógnar hugsun er á bak við þetta allt. Ég hef ekki svarið en nýt þess bara að fylgjast með.

Ég..... átti að vera heima og læra. Er auðvitað löngu vaknaður og búinn að sjá maganum fyrir sínum morgunskammti því hann er ekki skemmtilegur félagi ef hann fær ekki sitt.
Íris er á leiðinni hingað. Hún ætlar að fara í kofann okkar til að finna ró og næði til ritgerðarskrifa. Gott hjá henni. Hún er að útskrifast í vor með mastersgráðuna sína og svo get ég sagt ykkur með stolti að hún er búin að fá fastráðningu sem lögfræðingur hjá skattinum í Hafnarfirði - litla krílið, ég er ánægður með hana.
Ég held það sé vissara að ég snúi mér líka að lærdómnum svo ég útskrifist einhverntíman líka.
Njótið daganna gott fólk, við búum í landi tækifæranna - ekki gleyma því.

föstudagur, mars 12, 2010

Afmæli

Þegar ég lít yfir farinn veg og skoða hvar helst er ástæða til að staldra við, kemst ég að því að skrefin mín upp traðir Sunnuhlíðar forðum skilja eftir sig þau spor sem mér þykir mest til um á lífsleiðinni. Þann dag skildi ég eftir spor í sögunni minni sem aldrei gleymast.
Þann dag hitti ég heiðurshjón Ellu og Bigga. Þar hófust kynni í ætt við gull... það hefur aldrei fallið á þau.
Þá var Ella 36 ára, um helmingi yngri en hún er í dag svo okkar samferð spannar hálfa ævina hennar. Hún fær í mínum huga stimpilinn - heil í gegn.... úr gulli.
Það má enda segja að það þurfti góð gen þeirra beggja til að geta af sér dótturina sem varð minn lífsförunautur. Þau örlög sem ófu lífsvefinn minn þennan dag sem ég gekk á fund foreldra hennar, eru æðri máttar - sagt og skrifað.

Ella mín - í tilefni dagsins langar mig að þakka þér fyrir vegferðina öll árin og fyrir að vera sú manngerð sem þú ert. Ekki síst hvað þú ert mikill örlagavaldur í mínu lífi sem best sést á stækkandi ættleggnum okkar Erlu.

Til hamingju með daginn.

miðvikudagur, mars 03, 2010

Hraunið

Var á Litla Hrauni í dag. Það tengdist afbrotafræðikúrs í skólanum. Margrét Frímannsdóttir fylgdi okkur um allt fangelsið, gegnum allar deildir og sýndi okkur allan aðbúnað fanga og fangavarða. Við þurftum að votta trúnaðaryfirlýsingu áður en við fórum inn svo það er betra að segja frá passlega miklu hér á veraldarvefnum. Það var magnað að sjá hvað hún er búin að gera góða hluti þarna. Öryggisfangelsi orðið að betrunarvist á mörgum sviðum sem var ekki fyrir aðeins örfáum árum. Það var gaman að tala við fangana og heyra hvað þeir eru ánægðir með þær breytingar sem orðið hafa. Samt eru reglur sem er fylgt fast eftir.

Mér varð samt hugsað til þess þegar ég gekk út úr fangelsinu hvað það hlýtur að vera mikil áraun að ganga þarna inn vitandi að þaðan verður ekki snúið fyrr en eftir par ár.
Það að sitja hér á skrifstofunni minni og hafa morgundaginn nánast í hendi mér svo langt sem það nær er - verðmæti.
Frelsið er yndislegt ég geri það sem ég vil....... Það er meira en margur.
Ég er þakklátur fyrir það líf sem ég á.