laugardagur, mars 20, 2010

Laglína

Ég er grasekkill. Hvaðan sem það orð er nú ættað. Erlan er í sumarbústað með saumaklúbbnum sínum sem ég held að eigi orðið nærri tuttugu ára sögu, ágætis líftími það. Þær fóru af stað í gærkvöldi með viðkomu í Menam hér í bæ. Mér skildist að það væri nauðsynlegt til að hrista hópinn saman í byrjun ferðar. Þær kunna á nótnaborðið í lífinu þessar elskur.
Er þetta kannski þannig? Er vöggugjöfin okkar allra nótnaborð en engar nótur til að spila eftir? Uppvaxtarárin æfingatími undir leiðsögn og svo spilar hver eftir sínu eyra. Ætli laglínurnar okkar séu svona misjafnar þessvegna. Hver er sinnar gæfu smiður gæti þá hljómað - hver er sinna nótna smiður.

Sónatan mín er allavega ljúf þessa dagana þó ég geti auðvitað kveinað yfir lærdómnum, annað væri ekki búmannlegt. Enginn er búmaður nema hann barmi sér.....!
Það getur samt verið erfitt að vera kvartandi búmaður í þessu umhverfi sem mér hefur verið plantað í. Þessi reitur hér er sá besti á jarðarkúlunni fyrir okkur. Hér við bæjardyrnar verð ég vitni að fegurstu tónum tilverunnar á hverju vori þar sem náttúran sjálf spilar tónverkið. Ég horfi hér á sköpunarverkið í beinni - þessa ótrúlegu smíð sem virkar frá smæstu mögulegu einingum upp í tröllslegar víddir. Allt vaknar til lífsins og endurnýjast. Maður stendur hjá, opinmynntur og langeygur, hvaða ógnar hugsun er á bak við þetta allt. Ég hef ekki svarið en nýt þess bara að fylgjast með.

Ég..... átti að vera heima og læra. Er auðvitað löngu vaknaður og búinn að sjá maganum fyrir sínum morgunskammti því hann er ekki skemmtilegur félagi ef hann fær ekki sitt.
Íris er á leiðinni hingað. Hún ætlar að fara í kofann okkar til að finna ró og næði til ritgerðarskrifa. Gott hjá henni. Hún er að útskrifast í vor með mastersgráðuna sína og svo get ég sagt ykkur með stolti að hún er búin að fá fastráðningu sem lögfræðingur hjá skattinum í Hafnarfirði - litla krílið, ég er ánægður með hana.
Ég held það sé vissara að ég snúi mér líka að lærdómnum svo ég útskrifist einhverntíman líka.
Njótið daganna gott fólk, við búum í landi tækifæranna - ekki gleyma því.

Engin ummæli: